Fótbolti

Ný ævintýri í Kasakstan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes í leik með FH síðastliðið sumar. Síðan þá hefur hann spilað í Rússlandi og er nú kominn til Kasakstan.
Hannes í leik með FH síðastliðið sumar. Síðan þá hefur hann spilað í Rússlandi og er nú kominn til Kasakstan. Fréttablaðið/Stefán
Hannes Þ. Sigurðsson gekk í vikunni frá samningi við FC Atyrau í Kasakstan sem gildir til loka tímabilsins. Hannes heldur því áfram að spila á framandi slóðum því á seinni hluta síðasta tímabils lék hann með Spartak Nalchik í Rússlandi.

Hann var samningslaus þegar forráðamenn Atyrau höfðu samband við umboðsmenn Hannesar. „Mér fannst þetta heillandi," sagði Hannes í samtali við Fréttablaðið í gær. „Liðið var að leita sér að sóknarmanni og það var mælt með mér við þjálfarann. Þannig kom þetta til."

Þjálfarinn umræddi heitir Zoran Flipovic og á langan feril að baki, bæði sem þjálfari og leikmaður. Hann var landsliðsþjálfari Svartfjallalands frá 2007 til 2010 en sem leikmaður lék hann lengst af sem sóknarmaður með Rauðu stjörnunni í Belgrad. „Mér líst auðvitað gríðarlega vel á þjálfarann og mér fannst mjög spennandi að fá að spila fyrir mann sem státar af slíkum ferli," segir Hannes.

Hér er gott að veraHannes lék lengi vel á Norðurlöndunum sem og eitt tímabil í Englandi. Hann kom svo aftur til Íslands og spilaði rúmlega hálft tímabil með FH í fyrra áður en hann hélt utan til Rússlands.

„Ég sé alls ekki eftir því og ég heillaðist mjög af Rússlandi og nú Kasakstan. Fótboltinn í þessum heimshluta er á uppleið og menn ætla sér stóra hluti. Hér ríkir líka velmegun, fólkið er afar vingjarnlegt og hér er gott að vera."

Hann segist aldrei hafa verið hræddur við að prófa eitthvað nýtt. „Þetta er mikið ævintýri og hér kynnist maður ýmsu sem er manni framandi, sérstaklega eftir að hafa verið lengi á Norðurlöndunum. Það er gaman að upplifa nýja hluti og kynnast nýrri menningu og án efa meiri upplifun heldur en að vera allan atvinnumannaferilinn í Skandinavíu."

Sjálfsagt eru fáir Íslendingar sem þekkja mikið til Kasakstan. Landið nær yfir tvær heimsálfur, Evrópu og Asíu, en knattspyrnusamband landsins fékk inngöngu í Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, árið 2002. Landið er ógnarstórt, um 2,7 milljónir ferkílómetra og er stærra en öll Vestur-Evrópa.

Atyrau er olíuborg en þess fyrir utan er almennt mikið um peninga í knattspyrnunni í Kasakstan. „Þetta er stærsti samningur sem ég hef gert og er ég mjög ánægður með þá hlið mála," sagði Hannes.

Góður gluggi fyrir RússlandHafþór Hafliðason er einn umboðsmanna Hannesar en umboðsskrifstofan Sportic hefur séð um hans mál. „Hannes vildi vera áfram í Rússlandi en fyrst það gekk ekki er gott að komast til Kasakstan. Það er góður gluggi fyrir rússneska boltann," sagði Hafþór. „Kasakstan er olíuveldi og þarna eru lið með mikinn pening. Deildin hefur styrkst mikið."

Hafþór segir að lönd á borð við Rússland og Kína séu spennandi kostir fyrir knattspyrnumenn.

„Eins og sést á því hversu margar stórstjörnur eru farnar til þessara landa þá er mikill peningur í knattspyrnunni í þessum heimshluta. Landslagið hefur verið að breytast mikið á síðustu 5-10 árum og fyrir leikmenn sem eiga ekki tök á því að komast í stærstu deildir Evrópu er fjárhagslega mjög hagstætt að fara á þessa nýju markaði.

Hannes hefur mikinn metnað fyrir því að spila í Rússlandi og verður sú deild mjög stór áður en langt um líður. Við teljum að þetta sé gott skref í þá áttina. Hann þarf að komast á beinu brautina, fá að spila mikið svo hann geti skorað mikið af mörkum. Við teljum að þetta sé rétta liðið fyrir hann."

Sjálfur segir Hannes að liðið ætli sér að vera í fremstu röð í Kasakstan. „Liðið endaði í tíunda sæti á síðustu leiktíð og því erfitt fyrir mig að meta stöðuna nákvæmlega. En það ríkir bjartsýni hér og stefnan hefur verið sett á efstu fimm sætin."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×