Íslenski boltinn

Lennon: Þetta var bara vinaleg stríðni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Skúli Jón Friðgeirsson.
Skúli Jón Friðgeirsson. Mynd/Hag
Eftir leikinn á mánudag fóru Steven Lennon og Gary Martin, leikmaður ÍA, mikinn á samskiptasíðunni Twitter þar sem þeir gerðu stólpagrín að Skúla Jóni Friðgeirssyni, leikmanni KR en Fram vann 5-0 sigur á KR þar sem Lennon skoraði öll fimm mörk Framliðsins.

„Númer 7 í vörninni hefur tvo gíra. Hann er svakalega fljótur," sagði kaldhæðinn Martin og Lennon svaraði: „Var hann ekki valinn í landsliðið? Ég hef spilað við betri leikmenn í yngri flokkunum."

Þessi ummæli þeirra, og fleiri til, fóru fyrir brjóstið á mörgum sem fannst þeir sýna Skúla Jóni algert virðingarleysi.

„Þetta var bara saklaus og vinaleg stríðni. Það er eðlilegt í Bretlandi að haga sér svona. Ég ætlaði ekki að vera með neitt virðingarleysi út í Skúla. Við vorum bara að grínast," sagði Lennon.

„Ef Skúli tekur þessu illa þá munum við Gary biðja hann afsökunar en eins og ég segi þá var þetta bara grín."

KR og Fram mætast næst þann 23. febrúar í Lengjubikarnum. Er þegar byrjað að tala um íslenska handabandaspennu í anda enska boltans.

„Það verður bara skemmtilegur leikur. Ég hef ekki trú á öðru en að við Skúli heilsumst. Þetta var saklaust hjá mér. Við erum vanir að kynda hvorn annan heima hjá mér og kannski vantar meiri slíkan húmor á Íslandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×