Lífið

Tréfígúrur byggðar á Hjálmum

Tréfígúrur byggðar á hljómsveitinni Hjálmum verða til sýnis í Listasafni Reykjanesbæjar.
Tréfígúrur byggðar á hljómsveitinni Hjálmum verða til sýnis í Listasafni Reykjanesbæjar.
„Hljómsveitin Hjálmar er einstaklega skemmtileg útlits og þeir hafa afgerandi karaktera hver og einn. Það hefur verið mjög gaman að fást við þetta,“ segir listakonan Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir.

Hún hefur búið til tréfígúrur byggðar á hljómsveitinni Hjálmum. Þær verða sýndar á sýningu hennar í Listasafni Reykjanesbæjar sem opnar á föstudag. Sýningin ber yfirskriftina Á bóndadag, þar sem þorrablótsstemning ræður ríkjum, og alls verða um 25 skúlptúrar til sýnis, bæði eftir hana og sex gestalistamenn sem taka þátt í sýningunni. Hjálmaverkið er því aðeins lítill hluti af því sem fyrir augu ber.

„Mig vantaði hljómsveit á þorrablótið,“ segir Aðalheiður um ástæðuna fyrir því að Hjálmar voru notaðir sem fyrirmynd í verki hennar. „Ég nota yfirleitt manneskjur sem ég þekki. Við erum náskyld, ég og Helgi Svavar Helgason trommuleikari. Ég er búin að þekkja hann síðan hann fæddist, þannig að það voru hæg heimatökin.“

Aðalheiður tekur fram að þetta séu ekki portrettmyndir af Hjálmunum heldur vinni hún verkið eftir tilfinningu sinni fyrir karakterunum. Aðspurð segist hún samt forðast að búa til frægar persónur. „Mér finnst ekki gott þegar verkin einskorðast við eina manneskju. Þau eru fallegust þegar þau geta verið hver sem er, þá fær verkið víðara samhengi.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.