Innlent

Meiri áhersla á sölu leyfa til útlendinga

Starir, í eigu Davíðs Mássonar, Halldórs Hafsteinssonar og Ingólfs Ásgeirssonar, mun ekki bjóða í aðrar ár heldur er félagið alfarið stofnað til að sinna Þverár/Kjarrár-verkefninu. Hér sést Vaðið í Kjarrá og Neðri-Pottur. Veiðihúsið Víghóll er uppi á leitinu.
Starir, í eigu Davíðs Mássonar, Halldórs Hafsteinssonar og Ingólfs Ásgeirssonar, mun ekki bjóða í aðrar ár heldur er félagið alfarið stofnað til að sinna Þverár/Kjarrár-verkefninu. Hér sést Vaðið í Kjarrá og Neðri-Pottur. Veiðihúsið Víghóll er uppi á leitinu.
Sala til fyrirtækja og útlendinga mun standa undir hærri leigu í Þverá og Kjarrá segir nýr leigutaki. Mun bjóða Litlu-Þverá sem nýtt tveggja stanga veiðisvæði. Gamlar hefðir verða endurvaktar við Kjarrá og veiðimenn fá undir sig hesta.

Nýir leigutakar Þverár og Kjarrár í Borgarfirði boða töluverðar breytingar sumarið 2013; Litla-Þverá verður boðin sem nýtt tveggja stanga svæði og veiðimönnum stendur til boða að sækja veiði í Kjarrá á hestum hluta úr sumri, eins og tíðkaðist fyrr á árum. Þrátt fyrir töluverða hækkun á leigu ánna reikna nýir húsbændur með því að verð á jaðartíma verði svipað og fyrri ár. Besti tíminn, sem hefur um áratuga skeið aðallega verið seldur til fyrirtækja og útlenskra veiðimanna, mun standa undir hærri leigu.

Leigutaki árinnar, Starir ehf., greiðir Veiðifélagi Þverár 111,7 milljónir króna á ári. Greiðslur fyrir uppkaup netalagna í Hvítá og vegagerð koma því til viðbótar.

Töluverð umræða spannst í haust um hækkun veiðileyfa í kringum útboð Þverár og Kjarrár. Ingólfur Ásgeirsson, einn leigutaka, segir að í umræðunni gleymist að um áratuga skeið hafi besti tíminn í ánni, eins og öllum öðrum sambærilegum ám, verið seldur til fyrirtækja og útlendinga.

„Við munum reyna að auka hlutdeild erlendra viðskiptamanna eftir föngum og lítum til þess verðs sem gengur og gerist í sambærilegum ám, sem eru fáar. Íslenski markaðurinn tekur ekki við miklum hækkunum á veiðileyfum og við munum taka tillit til þess.“

Ingólfur segir þá félaga ætla að byggja á þeim hefðum sem veiðifélagið Sporður, fyrri leigutaki ánna, hafi skapað undanfarin ár en hrinda jafnframt sínum hugmyndum í framkvæmd.

„Við erum að taka við frábæru búi; áin hefur sérstöðu og yfir henni hvílir sérstakur andi. Við ætlum að bjóða veiðimönnum nýtt tveggja stanga svæði sem er Litla-Þverá. Það verður spennandi kostur á mjög sanngjörnu verði. Svo langar okkur að endurvekja gamlar hefðir með því að bjóða hestaferðir á efri hluta Kjarrár hluta úr sumri.“

Ingólfur segir jafnframt að eftir 20. ágúst verði boðið upp á nýjan kost í Þverá, en tvær stangir verða þá seldar til silungsveiða, með góðri laxavon, á neðsta hluta árinnar. „Við teljum okkur vera að auka töluvert við þá kosti sem eftirsóttastir eru af íslenskum veiðimönnum,“ segir Ingólfur.

Þeir félagar ætla að leggja frekari áherslu á veiða/sleppa og veiðimenn fá að taka færri fiska með sér heim en áður. „Við ætlum að innleiða enn frekar þessa hugsun fluguveiðimanna enda er það framtíðin að stórum laxi, og hluta af smálaxinum, sé sleppt. Það er til hagsbóta fyrir veiðimenn að árnar séu fullar af laxi út veiðitímann, auk þess sem það eykur líkur á sjálfbærni ánna.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×