Innlent

Mistök að veita ekki upplýsingar án tafar

Alls var dreift ellefu þúsund tonnum af áburði sem innihélt ríflega tvöfalt það magn kadmíums sem reglugerðir heimila. Kadmíum er eitraður þungmálmur. fréttablaðið/pjetur
Alls var dreift ellefu þúsund tonnum af áburði sem innihélt ríflega tvöfalt það magn kadmíums sem reglugerðir heimila. Kadmíum er eitraður þungmálmur. fréttablaðið/pjetur
Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar (MAST), viðurkennir að það hafi verið mistök að upplýsa ekki bændur og almenning um að áburður með of háu kadmíum-innihaldi hafi verið seldur og honum dreift. Af því verði lært og verklagsreglum breytt. Málið gefur hins vegar ekki tilefni til afsökunarbeiðni frá hendi stofnunarinnar, að hans mati, hvað þá að honum sem forstjóra beri að segja af sér vegna þess.

„Það er allt of langt gengið. Þetta mál er ekki þannig vaxið. Það var engin hætta fyrir hendi í þessu eina tilviki,“ segir Jón, en hann sem forstjóri Matvælastofnunar ber faglega ábyrgð á störfum hennar.

MAST fór fram á það 2008 að birta upplýsingar úr áburðareftirliti. Það gekk ekki eftir því sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf út stjórnsýsluúrskurð um að það væri óheimilt. Lögum var seinna breytt til að birting upplýsinganna væri möguleg og á þeim grundvelli hefur MAST birt þessar upplýsingar í ársskýrslu. „Það er tilefni þess að þetta mál kemur upp núna,“ segir Jón. „Það sem við höfum lært núna er að það voru mistök að birta ekki upplýsingarnar strax og þær lágu fyrir.“

Jón segir málið snúa að ábyrgð Skeljungs á sinni vöru, enda hafi þeir fengið upplýsingar um innihald áburðarins strax. „Ef við ætlum að stöðva vöru verðum við að hafa rökstuddan grun um að eitthvað sé að. Í þessu tilviki var ekki um það að ræða. Þá var spurningin hvað ætti að gera á miðju sumri, en niðurstöður voru endanlega staðfestar í júní. Þá var varan komin í dreifingu og byrjað að nota hana. Þá fór fram hættumat og niðurstaðan var að ekki væri nein bráð hætta.“

Spurður hvort ekki hafi verið rétt að hafa samband við þá sem keypt höfðu vöruna um leið og lá fyrir hvers kyns var, og þannig láta bændum það eftir að taka ákvörðun um hvort áburðurinn yrði settur í jörð segir Jón: „Það er kjarni málsins. Við, eða fyrirtækið, áttum að upplýsa þetta strax. Þar liggja mistökin og við munum taka það verklag upp að birta svona upplýsingar um leið og þær liggja fyrir. Við höfum enga ástæðu til að leyna svona upplýsingum.“

Jón segist hins vegar ekki getað svarað því af hverju ákveðið var í sumar að upplýsa engan í níu mánuði um að ósöluhæfur áburður var kominn í dreifingu. „Ég get ekki svarað því af hverju nákvæmlega þetta var ekki upplýst á þeim tíma.“

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×