Lífið

Leoncie með langþráða tónleika á Íslandi

„Ég hlakka mikið til að koma fram á Íslandi," segir indverska prinsessan Leoncie.

Leoncie er væntanleg til landsins og kemur fram á Gauki á Stöng laugardaginn 28. janúar.

Sjö ár eru liðin frá því að Leoncie flutti til Bretlands og hefur hún síðan þá ekki komið fram á Íslandi. Í viðtali við Fréttablaðið segist hún ekki óttast að það hafi fækkað í aðdáendahópnum hér á landi.

„Ég á hiklaust fjölmarga aðdáendur á Íslandi vegna þess að lögin mín eru upplífgandi og jákvæð," segir hún. „Nýju lögin mín eru hvert öðru fyndnara og jákvæðara. Ég nýt þess að koma fólki til að hlæja. Ég elska að sjá fólk brosa. Það er niðurdrepandi að horfa framan í fúlt fólk. Hvers vegna í veröldinni ætti fólk að vera fúlt og leiðinlegt? Allir aðdáendurnir mínir eru hamingjusamt fólk. Húrra!"

Leoncie hyggst flytja mörg ný lög – lög sem hún fór alla leið til Kanada til að taka upp. „Ég mun svo pottþétt flytja klassísk lög eins og Ást á pöbbnum og fleiri," segir hún. Hún segist hafa komið víða fram undanfarið, meðal annars í heimalandi sínu Indlandi, Kanada og Bandaríkjunum. „Ég kem fram á risastórum vel borguðum viðburðum á vegum stórfyrirtækja," segir hún.

Dvöl Leoncie á Íslandi verður ekki löng í þetta skipti, en hún segist vera mikið bókuð á næstunni og bætir við að eftirspurnin sé mikil á meðal skólabarna í Kanada og Bandaríkjunum, sem vilja að hún komi fram á söngkeppnum.

„Hversu yndislegt er það? Ég elska það. Þau eru að minnsta kosti að gera eitthvað jákvætt og gott í lífinu, í staðinn fyrir að áreita fólk eins og hatursfullu uppvakningarnir í Sandgerði fyrir sjö árum." Hún ætlar jafnvel að taka upp ný tónlistarmyndbönd hér á landi ásamt því að skoða fasteignamarkaðinn, en hún hyggst festa kaup á húsi hér á landi í náinni framtíð. „Ég á þegar þorp á Indlandi þar sem hamingjusöm börn syngja lögin mín," segir Leoncie.

Leoncie lofar einstökum tónleikum í lok janúar. „Ég er ánægð með þá staðreynd að margt fólk sér lífið með sömu augum og ég. Hvort sem ég fæ spilun í útvarpi eða ekki, heimsfrægð eða ekki, stóra samninga eða ekki. Ég er í þessum bransa til að vera," segir Leoncie og sendir þjóðinni áramótakveðjur.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.