Íslenski boltinn

Þorvaldur dæmir hjá Arnóri og Kristjáni í norsku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorvaldur Árnason.
Þorvaldur Árnason. Mynd/Daníel
Knattspyrnusamband Íslands og norska knattspyrnusambandið bjóða upp á dómaraskipti um helgina. Íslenskir dómarar dæma leik í norsku úrvalsdeildinni á sama tíma og norskt dómaratríó dæmir leikir í Pepsi-deild karla. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Þorvaldur Árnason mun dæma leik Hönefoss og Tromsö í efstu deild norsku deildarinnar og fer leikurinn fram á sunnudaginn á heimavelli Hönefoss. Þorvaldi til aðstoðar verða þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Gylfi Már Sigurðsson. Með Hönefoss spila einmitt íslensku leikmennirnir Kristján Örn Sigurðsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson.

Sama sunnudag munu svo norskir dómarar dæma hér í efstu deild en þá mun Ola Hobbar Nilsen dæma leik Breiðabliks og Selfoss á Kópavogsvelli. Honum til aðstoðar verða þeir Tom Harald Grönnevik og Joakom Knapstad.

Knattspyrnusambönd Noregs og Íslands hafa þarna bætt enn við þau samskipti sem hafa verið í norrænum dómaramálum. Eftir því sem starfsmenn KSÍ komast næst þá verður þetta í fyrsta skiptið sem erlendur dómari dæmir í efstu deild í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×