Íslenski boltinn

Jafntefli gæti fært FH-ingum titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hemir Guðjónsson, þjálfari FH-inga, þarf ekki að hafa miklar áhyggjur enda er staða liðsins frábær á toppi deildarinnar.
Hemir Guðjónsson, þjálfari FH-inga, þarf ekki að hafa miklar áhyggjur enda er staða liðsins frábær á toppi deildarinnar. Mynd/Stefán
Pepsi-deild karla fer aftur af stað á morgun eftir þrettán daga landsleikjahlé og það gæti farið svo að FH-ingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn og Grindavík félli þótt enn væru þrjár umferðir eftir af deildinni.

FH-ingar eru með tíu stiga forskot á KR-inga og KR-liðið verður búið að spila sinn leik á móti Breiðabliki þegar kemur að stórleik FH og Stjörnunnar klukkan 19.15 á sunnudagskvöldið. Takist Vesturbæingum ekki að vinna Blika þá verður það ljóst við fyrsta flaut á teppinu í Garðabæ að FH-liðinu nægir eitt stig til að gulltryggja sjötta Íslandsmeistaratitilinn á átta árum.

FH-liðið hefur unnið þrjá leiki í röð án þess að fá á sig mark og alls náð í 21 af 24 stigum í boði frá miðjum júlímánuði og það þykir flestum aðeins vera tímaspursmál hvenær FH-ingar endurheimta Íslandsbikarinn.

Grindvíkingar eru aftur á móti í afar slæmum málum á botni deildarinnar og ekkert nema sigur á móti ÍBV í Eyjum kemur í veg fyrir að liðið falli úr deildinni. Grindavík er tíu stigum á eftir Fram sem situr í síðasta örugga sætinu eins og er. Tapi Fram og nái Grindavík í stig þá munar níu stigum þegar níu stig eru eftir í pottinum en markatala Grindavíkurliðsins er miklu verri (20 mörk) og liðið væri því í raun fallið.

Það verður líka hart barist um Evrópusætin enda munar aðeins þremur stigum á liðunum í 3. til 6. sæti (Stjarnan 29, ÍBV 28, ÍA 28, Breiðablik 26). Bikarmeistaratitill KR-inga þýðir að liðin í 3. og 4. sæti komast í Evrópukeppnina næsta sumar.

Þá má ekki gleyma fallbaráttunni því slæm staða Grindvíkinga breytir því ekki að það fer annað lið líka niður í 1. deild og þar sem Framarar og Selfyssingar voru á miklu flugi fyrir frí þá mega liðin fyrir ofan þau vara sig. Tvö þeirra, Keflavík (tekur á móti Fram) og Fylkir (tekur á móti Selfossi) dragast fyrir alvöru niður í fallbaráttuna með tapi í þessum leikjum.- óój

Leikir morgundagsins:

16.00 ÍBV - Grindavík - Hásteinsvöllur

17.00 ÍA - Valur- Akranesvöllur

17.00 Keflavík - Fram - Nettóvöllurinn

17.00 Fylkir - Selfoss - Fylkisvöllur

17.00 KR - Breiðablik - KR-völlur

19.15 Stjarnan - FH - Samsung völlurinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×