Innlent

Einum umbunað fyrir það sem hinir hafa gert

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Starfsfólk Landspítalans finnst að með launahækkun forstjórans sé verið að umbuna einum fyrir það sem allir hinir hafa gert. Þetta segir hjúkrunarfræðingur á spítalanum en töluverð óánægja kraumar meðal starfsmanna vegna launahækkunarinnar.

Ákvörðun velferðarráðherra um að hækka laun Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans, um 450 þúsund krónur eða í 2,3 milljónir hefur vakið hörð viðbrögð meðal starfsmanna. Nú þegar rúm vika er frá því að greint var frá ákvörðuninni er margir enn ósáttir.

„Okkur finnst þetta ekki vera rétt forgangsröðun og fólk er ósátt og finnst svona það sé verið að umbuna einum fyrir það sem við öll hin höfum verið að gera," segir Bylgja Kærnested, deildarforstjóri hjúkrunardeildar á hjartadeild Landspítalans.

Þá segir hún hjúkrunarfræðinga hugsa um það sem sé sjúklingunum til góða og það sé launahækkunin ekki.

„ Hér höfum við lifað við linnulausan niðurskurð bæði fyrir og eftir hrun og eignilega frá 2008 þá erum við búin að skera þennan spítala niður um fjórðung. Besta leiðin náttúrulega til að spara er að fækka fólki og fækka rúmum og það höfum við sannarlega gert. Núna finnst mér sko síðasta ár og ef að fram heldur sem horfir þá erum við raunverulega að skerða verulega þjónustu við sjúklingana. Þá tala ég fyrst og fremst út frá hjartasjúklingum," segir Bylgja.

Hún segir að betra hefði til að mynda að nota peninga í tækjakaup en launahækkunina.

„Við erum hérna með gömul tæki sem eru komin vel yfir 20 ára aldur og jafnvel enn meira og höfum ekki getað keypt þau tæki til þess að halda uppi þessari bráðastarfsemi hérna. Við erum stöðugt að færa til sjúklinga svo að þeir veikustu fái þau tæki sem eru best og þetta er bæði óþægilegt fyrir sjúklingana, ógnar öryggi þeirra og tekur mikinn tíma starfsfólks sem þeir gætu notað í að sinna sjúklingunum betur," segir Bylgja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×