Innlent

Forsetinn hefur náðað 45

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Embætti forseta Íslands hefur náðað 45 dæmda einstaklinga síðan árið 1996. 122 manns voru náðaðir á tímabilinu 1980 til 1995. Alls hafa 513 umsóknir um náðun borist síðan árið 1993 og voru 54 samþykktar.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur náðað 45 fanga síðan árið 1996. Náðanir fanga virðast vera mun fátíðari nú en á níunda áratugnum, en alls fengu 122 einstaklingar náðun frá embætti forseta á árabilinu 1980 til 1995, en þá gegndi Vigdís Finnbogadóttir embætti forseta Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hafa 167 einstaklingar hlotið náðun hér á landi síðan árið 1980. Meðalfjöldi náðana er rúmlega fimm á ári.

Alls hafa 513 einstaklingar sótt um náðun frá embættinu á tímabilinu 1993 til 2010. Þar af hlutu 54 náðun, eða um tólf prósent. Karlkyns umsækjendur voru 432 og kvenkyns voru 81.

Samkvæmt stjórnarskránni hefur forseti Íslands heimild til að náða menn og veita almenna sakauppgjöf. Sérstök náðunarnefnd er starfrækt hjá innanríkisráðuneytinu og eru allar náðunarbeiðnir sendar til hennar til umsagnar.

Nefndin lætur ráðherra svo fá rökstudda tillögu um afgreiðslu á náðunarbeiðnum.

Náðun er skilorðsbundin til nokkurra ára. Ef náðaður einstaklingur heldur skilorð út reynslutímann fellur refsingin niður. Algengasti skilorðstíminn er tvö til þrjú ár og er náðunin skráð á sakavottorð einstaklingsins.

Aðeins er hægt að sækja um náðun á fésektum og fangelsisrefsingu, eins og fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins. Ekki er hægt að sækja um náðun á sviptingu ökuréttinda, sviptingu starfs eða sviptingu leyfis. Þá er ekki hægt að sækja um náðun eftir að einstaklingur hefur afplánað fangelsisrefsingu eða greitt sekt.

Ef dæmdur einstaklingur óskar eftir náðun á refsingu skal fresta fullnustu hennar ef hún er ekki þegar hafin, þar til beiðnin er afgreidd. Þá frestar beiðnin ekki fullnustu sé dómþoli þegar í afplánun. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×