Innlent

Vilja ákvæði inn í stjórnarskrá

„Við erum ekki öll eins og þjóðfélagið væri miklu minna virði ef við værum öll steypt í sama mót,“ segir í tilkynningu frá Samtökunum ´78.
„Við erum ekki öll eins og þjóðfélagið væri miklu minna virði ef við værum öll steypt í sama mót,“ segir í tilkynningu frá Samtökunum ´78. fréttablaðið/daníel
Stjórn Samtakanna "78 skorar á Alþingi að gera lagaúrbætur til handa transfólki. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í gær vegna þess að ungur transmaður var beittur ofbeldi á öldurhúsi í Reykjavík en fyrir þinginu liggur frumvarp um stöðu transfólks á Íslandi.

„Þetta atvik sýnir okkur hversu gríðarlega mikilvægt það er að Alþingi samþykki fyrirliggjandi frumvarp og bæti inn í stjórnarskrá og/eða refsilöggjöfina ákvæði til verndar transfólki með kynvitund sem ekki samræmist þeirra líffræðilega kyni,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur fram að stjórn samtakanna skrifaði síðasta sumar erindi til Stjórnlagaráðs um að bæta orðinu kynvitund inn í upptalningu á mismununarbreytum í jafnræðisreglu nýrrar stjórnarskrár. „Ef þessi tillaga að nýrri stjórnarskrá verður samþykkt er þar inni bann við mismunun vegna kynhneigðar, sem er ákveðinn sigur, en með því að bæta kynvitund inn í upptalninguna væri komin inn vernd fyrir transfólk einnig. Orðið kynhneigð vísar til þess hverja við elskum og orðið kynvitund til þess hvoru kyninu við upplifum okkur sjálf tilheyra,“ segir þar.

Stjórnlagaráð felldi naumlega tillöguna um að bæta kynvitund inn í textann og því ákvað stjórn Samtakanna að senda inn breytingartillögu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. - sháAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.