Íslenski boltinn

Gary Martin: Verðum að stöðva Tryggva

Martin í leik gegn Keflavík.
Martin í leik gegn Keflavík.
„Það er algjört lykilatriði fyrir okkur að stöðva Tryggva Guðmundsson ætlum við okkur að vinna ÍBV í kvöld," sagði, Gary Martin, framherji ÍA, í viðtali við Hjört Hjartarson í Boltanum á X-inu í morgun.

Gary segir að lagt verði upp með það að Tryggvi verði sem minnst með boltann í leik ÍA og ÍBV í kvöld.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta verður erfiður leikur. Engu máli skiptir þó þeir séu í næstneðsta sæti í deildinni. ÍBV er á ágætis skriði þessa dagana, liðið hefur unnið síðustu tvo leiki sína og mæta fullir sjálfstrausts í leikinn í kvöld."

Gary er búinn að skora tvö mörk í fyrstu sex leikjunum í Pepsideildinni í sumar. Hann viðurkennir að það hafi valdið honum vonbrigðum.

„Jú, auðvitað vildi ég að ég væri búinn að skora fleiri mörk en það er erfitt að kvarta þegar við erum í efsta sæti deildarinnar. Ég hef fengið nokkur góð færi til að skora en svona er fótboltinn stundum."

Gary hefur oft á tíðum farið mikinn á samskiptavefnum Twitter þar sem hann talar um hversu mikið honum og félaga hans í Skagaliðinu, Mark Doninger leiðist á Akranesi. Hann segist þó vera alsæll þessa dagana.

„Kærastan mín frá Englandi er í heimsókn hjá mér þessa stundina og því brosi ég allan daginn!", sagði Gary Martin.

Viðtalið í heild sinni má heyra hér:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×