Íslenski boltinn

Garðar segir markaskorun Stjörnunnar ekki bara vera á sínum herðum

Liðin í 4. og 5.sæti Pepsideildar karla í knattspyrnu, Stjarnan og Valur mætast í Garðabænum í kvöld. Leikurinn er báðum liðum afar mikilvægur en með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum sjöundu umferðar, minnkað forystu toppliðs ÍA niður í tvö stig.

„Fyrir okkur sker þessi leikur úr um hvort við ætlum að vera í toppbaráttunni eða bara í einhverju miðjumoði", sagði Garðar Jóhannsson í viðtali í Boltaþættinum á X-inu í morgun. „Þetta er svona „make it or break it" leikur fyrir okkur, við verðum að vinna þenna leik eiginlega."

Rétt eins og á síðustu tímabilum er mikið fjör í leikjum Stjörnunnar. Liðið hefur skorað 11 mörk í fyrstu sex umferðunum en um leið fengið á sig 10.

Garðar Jóhannsson var markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra en hefur farið hægt af stað í sumar og er einungis kominn með eitt mark í deildinni.

„Markaskorunin hjá Stjörnunni liggur ekki bara á mér. Ég tel mig vera ágætis hluti af þessu liði, yfirleitt þegar ég spila vel þá vinnum við. Það hlýtur að tala sínu máli. En það kemur yfirleitt maður í manns stað. Núna erum við komnir með Ellert [Hreinsson] inn í þetta og því harðnar samkeppnin um stöðuna í fremstu víglínu", sagði Garðar Jóhannsson.

Leikur Stjörnunnar og Vals hefst klukkan 20 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Smellið hér til að hlusta á viðtalið við Garðar frá því morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×