Enski boltinn

Sven-Göran útskýrir hvers vegna Ferdinand var ekki valinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eriksson var síðast í starfi hjá Leicester City í Championship-deildinni en var rekinn í vetur.
Eriksson var síðast í starfi hjá Leicester City í Championship-deildinni en var rekinn í vetur. Nordicphotos/Getty
Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, segir ástæðu þess að Rio Ferdinand hafi ekki verið valinn í EM-hóp Englendinga fótboltalegs eðlis.

Á vef Guardian er vitnað í Eriksson sem er góður vinur Roy Hodgson, landsliðsþjálfara Englands. Eriksson segir ekkert til í því að Hodgson hafi kosið að velja Ferdinand ekki í hópinn vegna vandamáls sem kom upp í vetur milli Antons Ferdinand, bróður Rio, og John Terry.

Terry var sakaður um kynþáttafordóma í leik Chelsea gegn QPR í ensku úrvalsdeildinni í vetur en málið verður þó ekki tekið fyrir fyrr en síðar í sumar. Rio Ferdinand telur að Hodgson hafi ekki valið sig þar sem Hodgson telji sig ekki geta haft Terry og Ferdinand saman í liðinu. Eriksson er ósammála.

„Við megum ekki gleyma því að Rio hefur glímt við meiðsli á tímabilinu," skrifaði Eriksson í pistli í sænska dagblaðinu Expressen.

„Roy hefur sínar ástæður. Annars hefði hann ekki hafnað Rio í tvígang. Margir skilja stöðuna þannig að ásakanir um kynþáttafordóma hjá Terry sé ástæða þess að Roy skilur Ferdinand útundan. Ég veit fyrir víst að það er ekkert til í því. Hvernig veit ég það? Þið verðið að treysta mér," segir Eriksson.

Hodgson valdi Martin Kelly varnarmann Liverpool í hópinn þegar ljóst varð að Gary Cahill yrði frá að hverfa vegna meiðsla. Eriksson segir Hodgson hafa viljað frískan leikmann í hópinn svo skömmu fyrir mót.

„Roy vildi leikmann sem er í leikformi. Leikmann sem hefur haldið sér í formi eftir að tímabilinu lauk," segir Eriksson og bætir við að Hodgson fylgist mjög vel með því hvaða leikmenn haldi sér í formi. Hann hvetur sparkspekinga til að dæma frammistöðu Hodgson í stjórastarfinu að loknu Evrópumótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×