Innlent

Skátar halda friðarþing í Hörpu

BBI skrifar
Skátar standa fyrir friðarþingi í Hörpu um næstu helgi í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi. Þingið er ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á hugmyndinni um frið.

Þingið hefst á pallborðsumræðum næsta föstudag þar sem hver framsögumaður heldur 5-8 mínútna framsögu um frið og ungmenni. Eftir það taka við stýrðar umræður. Pallborðsumræðurnar standa í um klukkustund. Þeir sem taka þátt verða Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dr Ashley James Deans, prófessor í uppeldis- og eðlisfræði við Maharishi háskólann í Iowa, og Luc Panissod, framkvæmdarstjóri alþjóða skátahreyfingarinnar.

Á föstudagskvöldið verða sérstakir friðartónleikar í Hörpu þar sem fram koma Ojba Rasta, Bloodgroup og Tilbury.

Á laugardaginn verður fjölbreytt dagskrá í boði, m.a. fjöldi fyrirlestra og vinnusmiðjur. Meðal fyrirlesara verða Magnús Scheving, íþróttaálfur, Steinþór Pálsson, Landsbankastjóri, Páll Óskar Hjálmtýsson og Herdís Egilsdóttir, rithöfundur.

Um 10 friðar- og mannréttindasamtök verða með kynningu á starfi sínu á friðarþinginu og fyrir liggur að um 100 útlendingar frá 11 löndum koma gagngert til Íslands til að taka þátt í þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×