Íslenski boltinn

Tryggvi í leikmannahópi ÍBV gegn FH

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV, verður samkvæmt heimildum Vísis í leikmannahópi liðsins sem mætir FH í Kaplakrika í Pepsi-deild karla í kvöld.

Tryggvi hefur verið hefur utan hóps hjá ÍBV í kjölfar agabrots um Verslunarmannahelgina. Auk þess var samningi Eyjamanna við Eyþór Helga Birgisson rift vegna agabrots.

Magnús Gylfason, þjálfari Eyjamanna, var í spjalli í útvarpsþættinum Boltinn á X-inu 977 í dag. Magnús útilokaði ekki að Tryggvi yrði í leikmannahópi ÍBV í kvöld sem yrði í fyrsta skipti síðan 29. júlí gegn Breiðabliki.

„Eigum við ekki bara að bíða og sjá? Það er mikil spenna í kringum þennan leik og við erum eins og þú segir að einbeita okkur að leiknum. Við viljum sem minnst vera að einbeita okkur að Tryggva. En auðvitað kemur það til greina, hann er einn af hópnum en það kemur bara í ljós þegar við mætum í leikinn," sagði Magnús í samtali við Hjört Júlíus Hjartarson.

Með sigri ÍBV í kvöld opnast titilbaráttan í deildinni upp á gátt. FH-ingar hafa fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar á KR en ÍBV yrði fimm stigum á eftir FH í þriðja sæti með sigri. ÍBV og FH mætast svo aftur í næstsíðustu umferðinni í Eyjum.

Leikur FH og ÍBV er í beinni útsendingu á Stöð2 Sport. Leikurinn sem fram fer í Kaplakrika hefst klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×