Erlent

Dauðvona sjúklingur segist vita hvar Jimmy Hoffa er grafinn

Dauðvona krabbameinssjúklingur er sagður hafa komið bandarisku lögreglunni á sporið um hvar lík verkalýðsforingjans Jimmy Hoffa er að finna.

Hvarf Jimmy Hoffa fyrir 37 árum er eitt dularfyllsta mál sem komið hefur upp í sögu Bandaríkjanna á síðari tímum. Það er talið víst að mafían hafi myrt hann en slíkt hefur aldrei verið hægt að sanna þar sem lík Hoffa hefur enn ekki fundist.

Hoffa var lengi leiðtogi Teamsters verkalýðsfélagsins sem á þeim tíma var stærsta verkalýðsfélag Bandaríkjanna með digra lífeyrissjóði. Síðar kom fram að mafían hafði greiðan aðgang að lánum úr þessum sjóðum, lánum sem aldrei voru endurgreidd.

Síðast sást til Hoffa á veitingahúsi í Bloomfield Township í Michigan í lok júlí árið 1975. Síðan þá hafa margar vísbendingar borist um hvar hann er grafinn en þær hafa ekki leitt til neins.

Lögreglan telur hinsvegar að vísbendingin sem hinn dauðvona krabbameinssjúklingur hefur gefið henni sé trúverðug en sjúklingurinn sem aðeins á fáa daga eftir ólifaða segist hafa engu að tapa með að upplýsa það sem hann varð vitni að kvöldið sem Hoffa hvarf.

Hann segir að hann hafi séð nokkra menn grafa lík niður í innkeyrslu við hús í úthverfi borgarinnar Roseville í Michigan og er viss um að það hafi verið Hoffa. Verið er að undirbúa uppgröft í innkeyrslunni og verður byrjað á því verki á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×