Birmingham City hefur gefið stjóra sínum Chris Hughton leyfi til þess að ganga til viðræðna við Norwich City. Kanarífuglarnir eru í leit að nýjum stjóra eftir að Paul Lambert tók við stjórastöðunni hjá Aston Villa.
Hughton, sem spilaði á sínum tíma með Tottenham og þjálfaði Newcastle, stýrði Birmingham í umspil Championship-deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð. Birminmgham féll út í undanúrslitum gegn Blackpool.
Hughton hefur einnig verið orðaður við starf knattspyrnustjóra West Brom sem einnig er í stjóraleit eftir að Roy Hodgson tók við enska landsliðinu.
Norwich hafnaði í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð undir stjórn Lambert. Frammistaða liðsins kom flestum í opna skjöldu og ljóst að erfitt verður fyrir nýjan stjóra að leika eftir frábært gengi nýliðanna í vetur.
