Fótbolti

Sara Björk: Ég mun aldrei biðja um skiptingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir. Fréttablaðið/stefán
Sara Björk Gunnarsdóttir. Fréttablaðið/stefán
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta leikur í dag sinn fyrsta leik í Algarve-bikarnum í ár þegar liðið mætir Evrópumeisturum Þýskalands. Þetta er í áttunda sinn sem íslensku stelpurnar taka þátt í þessu árlega móti en bestum árangri náðu þær í fyrra þegar íslenska liðið komst alla leið í úrslitaleikinn.

Sara Björk Gunnarsdóttir er sem fyrr í stóru hlutverki í íslenska liðinu en hún er þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul að fara að taka þátt í Algarve-bikarnum í fimmta sinn.

„Ég er alltaf spennt fyrir því að koma hingað og þetta er frábær undirbúningur fyrir undankeppni EM. Við höfum staðið okkur vel á þessu móti og höfum sýnt það og sannað að þessar stærri þjóðir geta ekkert vanmetið okkur lengur," segir Sara en hópurinn er nokkuð breyttur nú.

„Það vantar fastaleikmenn í liðið og við söknum þeirra mikið en það verður jafnframt spennandi að sjá hvernig nýir leikmenn koma inn í nýjar stöður. Vonandi fáum við meiri breidd í hópinn. Þetta er rosagóður undirbúningur fyrir framhaldið," segir Sara.

Íslenska liðið vann sögulega sigra á Dönum og Svíum í mótinu í fyrra og spilaði til úrslita á móti Bandaríkjunum.

„Við höfum ekki talað um það að fara aftur í úrslitaleikinn enda erum við bara að einbeita okkur að fyrsta leik. Við mætum þar Þýskalandi og það er stórleikur og það væri frábært að geta náð góðum úrslitum á móti þeim. Við höfum aldrei unnið Þýskaland og það er alltaf jafn krefjandi og skemmtileg áskorun að spila við svona gott lið," segir Sara sem spilar sinn 44. landsleik í dag.

Sara Björk er einn af leikmönnum íslenska liðsins sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðþjálfari var beðinn um að spara fyrir átta liða úrslit Meistaradeildarinnar sem taka við strax að loknu mótinu á Algarve.

„Mér líst ekkert á það," segir Sara í léttum tón. „Ég spila flesta leikina en ég skil alveg hans viðhorf að vilja spara mig og halda mér heilli fyrir leikina í Meistaradeildinni. Ég mun samt aldrei biðja um skiptingu en ég reyni að vera skynsöm og læt vita hvernig ég er eftir hvern einasta leik. Ef ég er fersk og líður vel þá vil ég náttúrulega spila alla leikina," segir Sara og hún segist njóta tímans vel í Portúgal.

„Þetta er fínt hótel og það er gott að komast í hitann og gaman að hitta stelpurnar. Þetta er frábært mót sem hefur alltaf þjappað liðinu vel saman. Þetta er rosalega mikilvægt fyrir okkur því að við æfum ekkert mjög mikið saman yfir árið. Það er því mjög mikilvægt mót fyrir okkur að koma saman í einhverja tíu til ellefu daga," segir Sara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×