Innlent

Neitar að reka kýrnar út úr fjósinu

Vestfirskur kúabóndi, sem neitar að hlýta fyrirmælum um að reka kýrnar út úr fjósinu á sumrin, segir þetta ekki snúast um velferð dýra heldur ímynd landbúnaðarins gagnvart húsmæðrum í Vesturbænum. Bóndinn í Botni í Súgandafirði, Björn Birkissson, segist reiðubúinn að fara með málið fyrir æðstu dómstig.

Þau Björn Birkisson og Helga Guðný Kristjánsdóttir eru með kýrnar í svokölluðu róbótafjósi, sem byggt var fyrir níu árum, sérstaklega sniðið til að þær væru fóðraðar inni allt árið. Þau ætluðu sér aldrei að setja kýrnar út enda var það ekki skylda þegar fjósið var teiknað og það ekki hannað til að þær séu að ganga úti.

En svo setti Matvælastofnun nýjar reglur. Allar íslenskar kýr skildu vera minnst átta vikur úti á sumrin.

Björn hafnar því að þetta snúist um velferð kúnna. Málið sé þó sett upp þannig. Björn segir hins vegar hægt að sýna fram á það á marga vegu að svo sé alls ekki.

„Þetta er ímyndarvandamál og ímyndin er sprottin upp af þekkingarleysi," segir bóndinn. Hann neitar því að greiða 50 þúsund króna sekt, enda hafi hann verið kominn með pappíra frá Matvælastofnun þar sem skýrt var tekið fram að ekki væri gerð krafa um að kýrnar yrðu settar út.

„Og það skal standa fyrir dómi," segir Björn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.