Innlent

Alltaf náðað vegna alvarlegra veikinda

Aðeins einn af 167 hefur rofið skilorð náðunar og verið settur aftur í fangelsi. Fréttablaðið/Vilhelm
Aðeins einn af 167 hefur rofið skilorð náðunar og verið settur aftur í fangelsi. Fréttablaðið/Vilhelm
Umsóknir fanga um náðanir hafa allar verið samþykktar á grundvelli heilsufarsástæðna. Síðan 1980 hafa alls verið náðaðir 167 einstaklingar hér á landi, þar af 45 á síðustu 16 árum.

Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, segir allar náðanir byggðar á læknisfræðilegum rökum.

„Menn geta verið að kljást við alvarleg geðræn vandamál eða eru algjörlega bundnir á stofnunum. Einnig er mjög algengt að menn eigi einfaldlega ekki langt eftir og séu við dauðans dyr,“ segir Skúli. „Svo eru einstaklingar sem eru algjörlega ósjálfbjarga og það er ekki hægt að vera með slíka menn í fangelsi. Það þjónar engum tilgangi.“

Dómarnir sem náðaðir einstaklingar hafa hlotið eru í langflestum tilvikum vægir. Skúli segir mikið þurfa að koma til ef um sé að ræða þunga dóma og slíkt heyri til algjörra undantekninga. „Það er til, en það er mjög óalgengt,“ segir hann. Í flestum tilvikum séu menn að afplána dóma fyrir fésektir.

Hljóti maður náðun þarf að halda almennt skilorð. Skúli man eftir einu tilviki þar sem náðaður maður braut skilorð, en þar var um að ræða mjög andlega veikan einstakling. „Hann var bara settur aftur í steininn.“

Sama gildir um skilorðsrof hjá náðuðum einstaklingum og þeim sem hafa fengið skilorðsbundna dóma. Í því samhengi bendir Skúli á að gæti viðkomandi keyrt, sem náðaðir einstaklingar geti þó yfirleitt aldrei, myndi hraðaksturssekt ekki valda skilorðsrofi. Til þess þyrfti árásarbrot eða annað alvarlegra lögbrot.

„Ástæða þess hversu skilorðsrof eru sjaldgæf yfirleitt er sú að þessir einstaklingar eru svo veikir að þeir hafa ekki burði til að brjóta af sér,“ segir hann. „Og ef þeir gera það, eru þeir yfirleitt ekki ábyrgir gjörða sinna.“

Ekki fást nánari upplýsingar um afbrot þeirra einstaklinga sem hlotið hafa náðun vegna þess hversu fangahópurinn er lítill og auðvelt er að rekja hvert tilfelli fyrir sig. Alls hafa 513 umsóknir um náðun borist síðan árið 1993. Af þeim voru 45 samþykktar.sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×