Lífið

Liam berst við blóðþyrstan úlfaflokk

Spennumyndin The Grey verður frumsýnd á morgun. Myndin skartar stórleikaranum Liam Neeson í aðalhlutverki og fjallar um hóp manna er reyna að draga fram lífið í óbyggðum Alaska eftir flugslys.

The Grey fjallar um hóp olíuverkamanna á leið heim í frí. Flugvél þeirra hrapar á leiðinni og við tekur barátta upp á líf og dauða í harðneskjulegri náttúru Alaska. Sé það ekki nóg þurfa þeir einnig að takast á við blóðþyrstan úlfaflokk er veitir þeim eftirför.

Liam Neeson fer með aðalhlutverkið og er hann eina þekkta andlitið í leikarahópnum ef frá er talinn Dermot Mulroney. Myndin er í leikstjórn Joe Carnahan og framleiðendur hennar eru bræðurnir Ridley og Tony Scott. Þetta er í annað sinn sem þríeykið og Neeson leiða saman hesta sína en þeir unnu síðast saman að gerð myndarinnar The A-Team.

Af söguþræðinum og leikarahópnum að dæma er auðsætt að myndin höfði heldur til karlkynsins og þeir dómar sem birst hafa á Netinu eru misgóðir. Vefsíðan Rottentomatoes.com gefur myndinni 83 prósent gæðastig og segir hana hina bestu afþreyingu. Á síðunni Imdb.com fær kvikmyndin þó verri útreið, söguþráðurinn sagður slakur og ótrúverðugur og leikurinn lélegur.

nordicphotos/getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.