Íslenski boltinn

ÍA getur ekki keppt við stóru liðin um leikmenn

Skagamenn fagna marki í 4-0 sigri liðsins gegn Selfyssingur á Akranesvelli í gærkvöld.
Skagamenn fagna marki í 4-0 sigri liðsins gegn Selfyssingur á Akranesvelli í gærkvöld. Guðmundur Bjarki Halldórsson
Þórður Guðjónsson, framkvæmdarstjóri Knattspyrnufélags ÍA segir félagið ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að halda sínum bestu leikmönnum þegar liðin á höfuðborgarsvæðinu sækist eftir þeim. Þau séu einfaldlega ríkari en ÍA. Þetta sagði Þórður í viðtali í Boltanum á X-inu í morgun þegar við hann var rætt um fyrirhugaða sölu félagsins á framherjanum öfluga, Gary Martin til KR.

Þórður viðurkenndi jafnframt að í því felist ákveðin þversögn að á sama tíma og ÍA ætlar sér stóra hluti í úrvalsdeildinni sé liðið að selja einn sinn allra besta leikmann til erkifjendanna í vesturbænum.

"Jú, ég get verið sammála því. Fólk má samt ekki gleyma því að við vorum í þrjú ár í 1.deild og þau ár voru félaginu gríðarlega dýr. Við erum klárlega langt á eftir liðunum á höfuðborgarsvæðinu hvað fjármagn varðar og það er bara blákaldur sannleikurinn. Við erum að koma undir okkur fótunum aftur og Gary Martin er bara einn af okkar aldýrustu leikmönnum", sagði Þórður.

Þórður bætti því við að ÍA hefði ætlað sér að selja Gary til félags í útlöndum og af þeim sökum hafi þeir lagt mikið á sig til að halda leikmanninum. Þegar ljóst var að ekkert yrði úr því að samningurinn yrði framlengdur í haust var ekki annað í stöðunni en að selja hann til KR.

"Við höfum undanfarin ár rekið félagið réttu megin við núllið. Við stöndum skilum á öllum okkar skuldbindingum. Það kostar peninga ætli lið sér að keppa um Íslandsmeistaratitilinn að alvöru og það er það sem við stefnum á. Það tekur hinsvegar tíma að byggja upp fjárhagslegt bolmagn og það erum við að gera, hægt og bítandi. Við erum á réttri leið", sagði Þórður.

Að sögn Þórðar hafa einhverjar fyrirspurnir borist í Mark Doninger, miðjumann ÍA en ekkert sé ákveðið í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×