Íslenski boltinn

Gummi Torfa: Vísar umræðu um eftirmenn Þorvalds á bug

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Ernir
Guðmundur Torfason, stjórnarmaður hjá Fram, vísar á bug vangaveltum um mögulega eftirmenn Þorvalds Örlygssonar, þjálfara meistaraflokks Fram. Þorvaldur sé þjálfari liðsins.

Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport, birti nöfn knattspyrnuþjálfara sem mögulega gætu tekið við þjálfarastarfinu hjá Fram færi svo að Þorvaldur yrði látinn taka poka sinn.

Framarar hafa tapað átta af ellefu leikjum sínum í Pepsi-deild karla í sumar og sitja í þriðja neðsta sæti deildarinnar. Vangaveltur hafa verið uppi hvort Þorvaldur njóti enn trausts Framara en Guðmundur Torfason neitaði að svara þeirri spurningu.

„Þorvaldur er þjálfari liðsins og ég skil ekki þessa umfjöllun. Við erum að vinna í því að finna lausnir á okkar málum og ég átta mig ekki á því hvað mönnum gengur til. Ég vísa þessu öllu á bug," sagði Guðmundur í samtali við Vísi í dag.

Guðmundur, sem þjálfaði lið Fram á árum áður auk þess að spila sem atvinnumaður erlendis og með íslenska landsliðinu, vildi sem minnst ræða málið.

„Maður þekkir það úr þessum fótbolta að það eru alls konar sögusagnir úr hinum og þessum áttum. Við kippum okkur ekkert upp við þetta," segir Guðmundur.

Ríkharður Daðason, fyrrum leikmaður Fram og landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, hefur verið nefndur sem mögulegur arftaki en hann kom af fjöllum í samtali við íþróttadeild í dag.

„Ég veit ekki neitt. Hef ekki heyrt neitt og reikna með því að þetta sé bara tóm vitleysa. Það síðasta sem ég heyrði var að Þorvaldur nyti fulls trausts stjórnarinnar. Ég reikna með því að það sé svoleiðis áfram," sagði Ríkharður.

Hann staðfesti ennfremur að hann hefði ekkert menntað sig í knattspyrnuþjálfarafræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×