Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur verið rólegur á leikmannamarkaðnum það sem af er sumars en hann boðar leikmannakaup á næstu tveimur vikum í viðtali við Sky Sports. City-menn hafa verið óhræddir við að eyða pening í leikmenn undanfarin sumur og því hefur komið á óvart hversu rólegir þeir hafa verið í sumar.
„Ég er viss um að við getum fengið nýja leikmenn til okkar á næstu tveimur vikum. Við erum að tala við nokkra leikmenn en leikmannamarkaðurinn í dag er erfiður viðureignar," sagði Roberto Mancini.
„Við gerðum góða hluti á síðasta tímabili en það verður enn erfiðara fyrir okkur á þessu tímabili. Þegar þú ert búinn að vinna þá eykst pressan á að vinna aftur," sagði Mancini.
„Við verðum því að bæta við leikmannahópinn. Við erum með góðan hóp og þurfum því ekki tíu nýja leikmenn en það er mikilvægt að styrkja eitthvað hópinn," sagði ítalski stjórinn.
