Innlent

Sakar stjórnvöld um að þverbrjóta reglur varðandi flóttamenn

Íslensk stjórnvöld hafa þverbrotið alþjóðlegar reglur um meðhöndlun flóttamanna. Þetta segir formaður nýstofnaðra samtaka sem hafa það að markmiði að varpa ljósi á málefni flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi.

Vinnuheiti samtakanna sem tóku til starfa í gær er Samtök áhugafólks um flóttamannavandann.

Teitur Atlason, formaður samtakanna, segir fyrst þurfa að vinna að söfnun upplýsinga um stöðuna. Mikil þörf sé á að varpa ljósi þessi mál.

„Ástand flóttamannamála er í algjörum molum á Íslandi. Í fyrsta lagi þarf að fara eftir þeim lögum sem gilda í landinu þegar kemur að málefnum flóttafólks, það er verið að mölbrjóta alþjóðasamninga sem Íslendingar hafa skrifað undir þegar kemur að flóttafólki. Til dæmis þegar flóttamaður kemur til landsins og framvísar fölsuðum passa þá eru mannréttindaskilmálar sem kveða á um að það sé ótækt að dæma dæma fólk fyrir skjalafals því það sé sé hluti af því að vera flóttamaður að reyna að bjarga sér og hluti af því sé að falsa skilríki sem á að nota."

Teitur vísar þar meða annars í 31. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Í henni er meðal annars kveðið á um að aðildarríkin skulu ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða vistar þar, ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað. Það er þó bundið þeim skilyrðum að þeir gefi sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu eða dvöl.

Tekið skal fram að stjórnvöldu kynntu í þessum mánuði tillögur nefndar um málefni útlendinga utan EES. Starfshópnum sem vann að tillögunum var ætlað að móta heildstæða stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum útlendinga og hafa að leiðarljósi að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda á því sviði.

Í skýrslu starfshópsins kemur meðal annar fram að ekki virðist hafa verið farið jafn afdráttarlaust eftir 31. grein flóttamannasamningsins og gert er annar staðar á Norðurlöndum.

Því leggur hópurinn til að meginreglan verði sú að flóttamenn og hælisleitendur verði ekki saksóttir vegna framvísunar falsaðra skilríkja, með vísan til ákvæðis 31. greinar flóttamannasamningsins.

Teitur fagnar þessum breytingum en segir hana til komna vegna þrýstings frá samfélaginu.

„Hefði engin sagt neitt, hefði ekkert gerst, það er bara staðreynd málsins. Það þarf alltaf að vera skerfi framar en stjórnvöld og berjast fyrir lýðræðisumbótum og það er tilgangur þessa félags," segir Teitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×