Innlent

Kynferðisbrotamál eru það erfiðasta við starf dómara

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Héraðsdómur Suðurlands er orðinn þriðji stærsti dómastóll landsins af átta dómstólum með um tólfhundruð og fimmtíu mál á ári. Þrír héraðsdómarar starfa við dómstólinn. Dómstjórinn segir kynferðisafbrotamál erfiðustu málin, sem koma inn á borð dómara.

Opið hús var hjá Héraðsdómi Suðurlands í gær á Selfossi í gær þar sem gestum og gangandi gafst kostur á að kynna sér starfsemi dómstólsins í tilefni af 20 ára afmæli héraðsdómstólanna á Íslandi 1. júlí í sumar.

Við dóminn starfa sex starfsmenn; þrír dómarar, einn löglærður aðstoðarmaður og tveir dómritarar. Mikið er að gera í dómstólnum, enda er hann þriðji stærsti dómstóll landsins miðað við málafjölda, af átta dómstólum.

„Samtals eru þetta 1253 mál sem við afgreiddum á síðasta ári. Og ef við miðum við málatölur þá er Héraðsdómur Suðurlands þriðji stærsti dómstóll landsins. Svo ég myndi segja að þetta væri mjög afkastamikill dómstóll," segir Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri Héraðsdóms Suðurlands.

Hjörtur segir að gjaldþrotamálum við dómstólinn hafi fjölgað mikið eftir hrun 2008.

„Einkamálum hefur fækkað, sakamálin eru kannski svipuð og þau voru árið 2005 eða 2006 ef ég man rétt. Gjaldþrotamálum hefur fjölgað, t.d. á síðasta ári voru 238 gjaldþrotaúrskurðir sem er náttúrlega mikil fjölgun frá því sem var fyrir hrun," segir hann.

Er ástandið ekkert að banta? spyr fréttamaður.

„Ég get ekki alveg sagt það. Þetta er aðeins að fara upp á við aftur, það var smá hlé á tímabili, en þetta er að fara upp á við aftur," segir Hjörtur.

En hvað er skemmtilegast við starf dómara?

„Þetta er nokkuð erfitt. Þetta er stundum skemmtilegt en stundum leiðinlegt. Erfiðustu málin eru kynferðisbrotamálin. Það er mjög erfitt að fást við þau og getur tekið mikið á að skoða klámmyndir, myndir af börnum og slíku. Það er mjög erfitt," segir hann. „Það er náttúrlega alltaf þannig í dómsmálum að einhver er ósáttur við niðurstöðuna. En það er líklega skemmtilegast þegar hægt er að komast að niðurstöðu sem allir eru sáttir við. Allir ganga sáttir frá borði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×