Innlent

Hugnast ekki að hafa posa við fossa landsins

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Stór hluti vinsælla ferðamannastaða á landinu eru í einkaeigu. Umhverfisráðherra segir að þörf sé á heildarúttekt á þessum málum og hugnast ekki að hafa posa við alla fossa landsins til að innheimta gjald.

Fyrir tveimur vikum viðraði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í fréttum okkar hugmyndir sínar um að ríkið eignist allt landið á Geysi í Haukadal en ríkið á í dag 35% af landinu á móti landeigendum og sagði hún það meðal annars vera vegna þess að þetta svæði væri skýr og klár náttúruperla.

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisstofnun eru fjölmörg friðlýst svæði og aðrir vinsælir ferðamannastaðir í einkaeigu. Sem dæmi má nefna, Seljalandsfoss, Skógafoss og Kerið á Suðurlandi, Húsafell á Vesturlandi en þar má meðal annars finna Hraunfossa og barnafoss, hæsti foss landsins Glymur í Hvalfirði er í eigu bæði landeigenda og sveitafélagsins en Hornstrandir á Vestfjörðum er að stærstum hluta í einkaeigu. Stór hluti landsins við Mývatn á norðausturlandi er í eigu landeigenda svo sem Hverfjall og Skútustaðagígar. Þá er Dyrhólaey í sameiginlegri eigu sveitafélaga og landeigenda. Önnur svæði svo sem Ásbyrgi, Skaftafell og Gullfoss tilheyra ríkinu auk þjóðgarða við snæfellsjökul og vatnajökul.

Svandís segir að hún hafi ekki haft í huga að ríkið keypti önnur svæði en Geysi.

„Ég held að þetta þurfi allt að vera til skoðunar og í samhengi. Ég held að það sé rétt að það sé heildarúttekt sem liggi fyrir en umræðan um Geysi hefur verið áberandi því þar er einn af okkar stærstu ferðamannaseglum ef svo má segja," segir Svandís.

Inni í þessa úttekt þurfi síðan að koma umræða um gjaldtöku á svæðum en landeigendur á mörgum náttúruperlum hafa sýnt á huga á að innheimta gjald á sínum svæðum til dæmis við Kerið og á Geysi.

„Ég held að það væri ekkert sérstaklega skemmtilegt yfirbragð af því að vera með posa við Skógafoss og annan við Seljalandsfoss heldur að þetta væri leyst með öðru móti. Svo hafa sumir bent á það að ef þú ert með gjald við einn foss þá færi ferðamaður á næsta foss þar sem væri ekki gjald svo þetta væri ekki góð leið til að stýra umferðinni," segir Svandís.

Þannig sé frekar ástæða til að skoða frekari útfærslu á gistináttagjaldi eða mögulega hugmyndir um Náttúrupassa þar sem ferðamenn borga fyrirfram fyrir aðgang að ákveðnum svæðum.

„Ég bara fagna umræðunni vegna þess að ég held að hún sé mikilvæg og ber keim af því að við séum að átta okkur á því að ferðaþjónustan sé slíkur vaxtarsproti að við verðum að koma þessu í skikkanlegan farveg og fara með þá vinnu á uppbyggilegar nótur," segir Svandís.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.