Innlent

Vonast til að samningaviðræðum verði lokið á mánudag

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar vonast til að samningaviðræðum við ríkisstjórnina um stuðning í ákveðnum málum verði lokið á mánudaginn. Ríkisstjórnin sé með tilboð á borðinu.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa undanfarna daga fundað með ríkisstjórninni um að verja hana vantrausti og tryggja framgang ákveðinna mála svo sem tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

„Við funduðum aðeins í gær en það svona... maður er hóflega bjartsýnn, en samt ekkert of. Það er ekkert hægt að segja meira um það á þessu stigi, við töluðum um það í gær að við vildum ljúka þessu á mánudaginn og drögum þetta ekkert lengra en það," segir Þór Saari.

Hann segir ekki áætlað að funda á morgun heldur sé málið í höndum ríkisstjórnarinnar.

„Það liggur þarna ákveðið tilboð á borðinu og það er að okkar mati þeirra að taka tillit til þess. Þetta er aðallega skuldamál heimilanna sem strandar á. Við teljum að ríkisstjórn sem ætlar að klára kjörtímabilið án þess að sinna þeim málum með nægilega góðum hætti, hefur ekkert með það að gera að sitja eitt ár í viðbót og þess vegna erum við svona hörð að leiða það mál til lykta," segir Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×