Innlent

Vilja að skýrslu sérstaks saksóknara verði vísað frá

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson er taldir hafa skipulagt Al-Thani fléttuna, en báðir eru ákærðir fyrir umboðssvik og þeir Ólafur og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra. Þá eru allir fjórir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson er taldir hafa skipulagt Al-Thani fléttuna, en báðir eru ákærðir fyrir umboðssvik og þeir Ólafur og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra. Þá eru allir fjórir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.
Verjendur fyrrverandi stjórnenda Kaupþings í svokölluðu al-Thani máli kröfðust þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að dómurinn felli úr málskjölum greinargerð um rannsókn á málinu sem sérstakur saksóknari gerði, áður en ákært var í því.

Í máli Gests Jónssonar, verjanda Sigurðar Einarssonar fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, kom meðal annars fram að í greinargerðinni kæmu fram ásakanir um sekt og fullyrðingar sem ekki væri eðlilegt að kæmi fram í greinargerð þar sem rannsókn er lýst. Gestur sagði að greinargerðin væri ekki skýrsla með lýsingu á rannsókn málsins heldur skriflegur rökstuðningur fyrir þvi að hinir ákærðu væru sekir.

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá Sérstökum saksóknara, fór fram á að kröfu verjendanna yrði vísað frá en til vara að framlagning greinargerðarinnar væri heimiluð. Björn sagði að krafan um að greinargerðin yrði felld út úr málsskjölum hefði þurft að koma fram við þingfestingu málsins, en hún var lögð fram nokkru síðar eða við fyrirtöku. Ef krafan yrði tekin til greina gætu menn eftir það komið fram hvenær sem er við meðferð málsins fyrir dómi og krafist þess að einhver gögn yrðu felld úr málsskjölum.

Al-Thani málið snýst um meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik í aðdraganda að hruni Kaupþings. Hinir ákærðu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Ólafur Ólafsson, einn aðaleigenda bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. Þeir Hreiðar og Magnús voru viðstaddir málflutning í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×