Innlent

Númer á stikum auðveldar leit

Einfaldar merkingar gætu reynst mikilvægar ef neyðarástand skapast á gönguleiðinni um Reykjadal.
Einfaldar merkingar gætu reynst mikilvægar ef neyðarástand skapast á gönguleiðinni um Reykjadal. nordicphotos/gettyimages
Hjálparsveit skáta Hveragerði (HSSH) hefur í haust, í samstarfi við Hveragerðisbæ, sveitarfélagið Ölfus og fleiri, unnið að auknu öryggi á gönguleiðinni um Reykjadal fyrir ofan Hveragerði. Ákveðið var að laga göngustíga, merkja betur hættur, gera göngubrýr, fjölga stikum og númera þær.

Merkingar stikanna eru hugsaðar þannig að ef einhver slasast þá er hægt að gefa upp númer á næstu stiku. Þannig fæst strax nákvæm staðsetning sem auðveldar skipulagningu og vinnu viðbragðsaðila. Einnig getur þetta hjálpað til ef fólk villist í dalnum.

Hluta verkefnisins er lokið og verður áfram unnið að því í vetur og næsta sumar þegar áætlað er að númera leiðir upp úr dalnum.

HSSH hefur gert lista með númerum og staðsetningu stikanna frá bílastæðinu upp að baðstað og hefur hann verið sendur svæðis- og landsstjórn björgunarsveitanna, Neyðarlínu, Landhelgisgæslunni, fjarskiptamiðstöð lögreglu og lögreglunni á Selfossi.

Margir hafa komið að verkinu, meðal annarra aðstoðaði þyrlusveit Landhelgisgæslunnar við flutning á efni í brýr og stíga upp í dalinn. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×