Lífið

Felur "fjársjóði“ á tökustöðum

Eysteinn Guðni Guðnason með eitt boxanna sem hann faldi á tökustað Batman Begins á Svínafellsjökli.
Eysteinn Guðni Guðnason með eitt boxanna sem hann faldi á tökustað Batman Begins á Svínafellsjökli.
Íslenskir og erlendir ferðalangar geta núna tekið þátt í ævintýralegri „fjársjóðsleit" hér á landi tengdri kvikmyndum. Geocache er vinsæl alþjóðleg „fjársjóðsleit" eða ratleikur sem styðst við GPS-tækni. Leikurinn gengur út á að hver sem er getur falið „fjársjóðsbox" hvar sem er í heiminum í gegnum síðuna Geocaching.com.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Eysteinn Guðni Guðnason hefur komið fyrir fjórtán kvikmyndaboxum víðs vegar um Ísland. „Þemað var að fela þetta á frægustu tökustöðunum. Þetta eru bæði víðförlir staðir og líka út úr leið," segir Eysteinn Guðni. Um er að ræða tökustaði mynda á borð við Batman Begins, Prometheus, Flags of Our Fathers og Die Another Day sem voru allar teknar upp að hluta til hér á landi, auk mynda eins og Börn náttúrunnar, Pappírs Pési og Nói albínói. „Þetta er mjög skemmtileg leið til að fara á staði sem maður fer annars ekki á," segir hann. „Þetta eru líka staðir sem maður fer kannski oft á án þess að vita að þar voru teknar upp frægar bíómyndir."

Í boxunum sem hann útbjó eru gestabók, útprentaðar ljósmyndir úr kvikmyndunum og minjagripir. „Þetta vekur athygli á íslenskri kvikmyndasögu og nú þegar eru margir útlendingar byrjaðir að taka þátt í leiknum."

Þátttakendum er bent á að fara inn á síðuna Kvikmyndir.is/geotrail til að hefja leikinn. Á Kvikmyndir.is er einnig hægt að finna tökustaði íslenskra og erlendra kvikmynda hér á landi með aðstoð Google Maps, eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.