Íslenski boltinn

Framkvæmdastjóri Fram: Þorvaldur nýtur 100 prósent trausts

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fram, segir að Þorvaldur Örlygsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu, njóti fulls trausts. Fram situr í næstneðsta sæti Pepsi-deildar karla með sex stig eftir átta umferðir.

Framarar hafa unnið tvo af fyrstu átta leikjum sínum. Annars vegar heimaleik gegn Grindavík 4-3 og hins vegar 2-0 sigur gegn Blikum í Kópavogi. Liðið átti líklega sinn slakasta leik í gærkvöldi þegar Keflavík vann 2-0 sigur í Laugardalnum.

„Þorvaldur nýtur 100 prósents trausts. Bæði stjórnin og allir í félaginu hafa 100 prósent trú á því sem hann er að gera og hefur gert fyrir félagið þessi ár. Þetta er auðvitað ástand sem félagið í heild sinni þarf að snúa við, ekki bara þjálfari og leikmenn, heldur allir sem koma að félaginu. Vonandi fer þá liðið að sýna þann fótbolta sem til er ætlast af Frömurum. Þá fara hlutirnir að rúlla, ég hef enga trú á öðru," segir Jón sem viðurkennir að Framarar hafi flestir reiknað með því að mótið myndi spilast öðruvísi hjá Safamýrarpiltum.

„Auðvitað vonuðust flestir Framarar til þess að þetta væri á uppleið eins og ég tel það klárlega vera. Þessi hópur sem við höfum er einn sá besti sem við höfum haft í langan tíma. Það voru ýmsir hlutir sem að voru ekki að falla með okkur í upphafi. Það vill verða að ef hlutirnir byrja að ganga illa og það vefur upp á sig er erfitt að brjótast út úr því," segir Jón sem telur liðið hafa spilað sérstaklega illa í tveimur leikjum í sumar.

„Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur þegar liðið er að tapa. Sérstaklega þegar það er ekki í spilunum að liðið nái í stig eins og var í gær. Þetta var mjög dapur leikur af okkar hálfu. Ég vil þó meina að á tímabilinu hafi bara verið tveir daprir leikir. Þessi í gær og svo 2-0 tapið á heimavelli gegn Selfossi. Ég vil meina að við höfum verið inni í hinum leikjunum en hlutirnir ekki fallið með okkur," segir Jón og segir ekki hafa verið boðað til krísufundar í Safamýrinni vegna dapurs gengis.

„Alls ekki en auðvitað þurfa menn að vera á tánum. Við getum ekki rúllað inn í annað ástand eins og í fyrra. Hópurinn í ár er hins vegar með það mikla karaktera innanborðs og gæðin eru það mikil að ég hef ekki trú á því að þetta fari í sama horf," segir Jón.

Þorvaldur Örlygsson tók við sem þjálfari Fram haustið 2007. Hann er samningsbundinn félaginu líkt og flestir leikmenn þess til 2013.


Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Keflavík 0-2

Keflvíkingar unnu þægilegan og virkilega sanngjarnan sigur á hugmyndasnauðu liði Fram í kvöld í Pepsideild karla í fótbolta, 0-2. Frans Elvarsson og Guðmundur Steinarsson skoruðu mörk Keflvíkinga í fyrri hálfleik og voru gestirnir aldrei í teljandi vandræðum í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×