Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Keflavík 0-2

Benedikt Grétarsson á Laugardalsvelli skrifar
Guðmundur Steinarsson.
Guðmundur Steinarsson. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Keflvíkingar unnu þægilegan og virkilega sanngjarnan sigur á hugmyndasnauðu liði Fram í kvöld í Pepsideild karla í fótbolta, 0-2. Frans Elvarsson og Guðmundur Steinarsson skoruðu mörk Keflvíkinga í fyrri hálfleik og voru gestirnir aldrei í teljandi vandræðum í þessum leik.

Keflvíkingar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og nýttu sér varnarmistök heimamanna á 7. mínútu og skoruðu fyrsta mark leiksins. Þar var á ferðinni Frans Elvarsson, sem átti prýðilegan leik á miðjunni. Gestirnir úr Bítlabænum voru miklu betri í fyrri hálfleik og á 20.mínútu skoraði refurinn Guðmundur Steinarsson glæsilegt mark með góðu langskoti. Framarar virkuðu ráðvilltir og Keflavík fór með verðskuldaða forystu til leikhlés.

Síðari hálfleikur varð aldrei skemmtilegur né spennandi. Keflavík hafði heljartök á leiknum og heimamenn virstust aldrei líklegir til að rétta sinn hlut. Niðurstaðan 0-2 sigur Keflvíkinga og það verða að teljast sanngjörn úrslit.

Guðmundur Steinarsson: "Hægasta skyndisókn allra tíma.“Guðmundur Steinarsson var varnarmönnum Fram óþægur ljár í þúfu og hann var að vonum sáttur eftir leikinn. „Við litum mjög vel út og mikilvægast var að halda hreinu í þessum leik. Við viljum ekki senda þau skilaboð að það sé auðvelt að skora hjá okkur en við höfðum fengið á okkur 8 mörk í síðustu tveimur leikjum og það var alveg kominn tími á að stoppa í götin." Aðspurður um draumamark sitt svaraði Guðmundur „Við vorum þarna tveir elstu mennirnir í liðinu í skyndisókn og það hefði sennilega orðið hægasta skyndisókn allra tíma. Ég sá að Ögmundur var ansi framarlega og ákvað að lúðra bara á markið. Sem betur fer heppnaðist það svona vel."

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson: "Við erum rosalega brothættir.“Ásgeir Gunnar Ásgeirsson kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik og var með skárri mönnum í slöku liði Fram. „Við fáum á okkur mark snemma og það er bara eins og menn hætti og gefist upp. Við erum rosalega brothættir og það var ekki boðlegt hversu linir við vorum í öllum okkar aðgerðum. Það er áhyggjuefni hversu auðvelt það er að brjóta okkur niður" Ásgeir tekur þó ekkert af Keflvíkingum. „Keflavík spilaði þennan leik mjög vel og eiga heiður skilið. Það breytir því ekki að við verðum að girða okkur í brók og mæta tilbúnir á teppið í Garðabænum í næsta leik.

Hér fyrir neðan birtast sjálfkrafa allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins, tölfræði, leikmannahópi liðanna auk textalýsingar frá blaðamanni Vísis á vellinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×