Innlent

Þungir dómar í Héraðsdómi - samanlögð refsivist 22 ár

Börkur Birgisson við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjaness.
Börkur Birgisson við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn sem féll í Héraðsdómi Reykjaness í dag tekur meðal annars til þriggja sérstaklega hættulegra líkamsárása, ólögmætrar nauðungar og frelsissviptingar. Ákæruvaldið lagði mikla áherslu á fyrsta ákærulið sem snérist um líkamsárás sem átti sér stað að Háholti í Mosfellsbæ, í janúar á þessu ári.

Sakfellt var í öllum ákæruliðum en ákærðu neituðu allir sök.

Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni og sjö öðrum var gefið að sök að hafa ráðist á fjóra menn sem voru í íbúðinni. Voru þeir vopnaðir hafnaboltakylfum, golfkylfum og sleggju.

Húsráðandi, Bergur Már Ágústsson, hlaut þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins hægri fótleggs og 6 sentímetra opinn skurð á framanverðum sköflungnum, brot á hægri hnéskel og bólgu í kringum hnéð. Þá hlaut hann fjölda yfirborðsáverka á fótlegg, úlnliðum og handleggjum.

Eins og áður hefur verið greint fá hér á Vísi voru Annþór og Börkur dæmdir til sjö og sex ára fangelsisvistar.

Aðrir sem hlutu dóma fyrir árásina í Háholti voru Jón Ólafur Róbertsson, Kaj Anton A. Larsen, Sigmundur Geir Helgason, Sindri Kristjánsson, Smári Valgeirsson, Viktor Hrafn Einarsson og Viggó Emil Berglindarson. Voru þeir ýmist dæmdir til eins og hálfs árs eða tveggja ára fangelsisvistar.

Í vitnisburði sínum við aðalmeðferð kvaðst Smári hafa lamið Berg Má með sleggjunni, eins oft og hann gat. Smári hlaut tveggja ára fangelsisdóm. Þá var hann og Kaj Anton sviptir ökuréttindum ævilangt.

Í öðrum ákærulið voru Annþór og Börkur, ásamt Jóni Ólafi og Sigmundi Geir, sakfelldir fyrir frelsissviptingu og hættulega líkamsárás í Grafarvogi í desember árið 2011. Ákærðu voru sakaðir um að hafa veist að tveimur mönnum, lamið einn með spýtu og migið yfir hinn. Mönnunum var hótað lífláti og frekari líkamsmeiðingum, greiddu þeir ekki tiltekna fjárhæð.

Framburður Annþórs og Barkar þótti ótrúverðugur og stangaðist hann á við framburð annarra. Þótti fullsannað að Annþór og Börkur hafi skipulagt árásina.

Þriðji ákæruliður tekur til líkamsárásar á sólbaðsstofunni Sól í Hafnarfirði í október árið 2011. Þar var Annþór fundinn sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart tveimur mönnum. Annþór sló annan manninn, tók hann kverkataki og sleppti ekki fyrr en hann missti meðvitund. Því næst sló hann manninn ítrekað í andlitið. Annþór skipaði hinum að leggjast í gólfið, sparkaði í líkama hans og stóð á höfði hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×