Innlent

Íbúum brugðið eftir íkveikjur

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kona hefur játað að hafa í tvígang kveikt í sameign íbúðarhúss við Maríubakka. Jólaundirbúningur íbúanna hefur einkennst af ótta og eiga börnin erfitt með að skilja það sem átt hefur sér stað.

Aðkoman var vægast sagt hrikaleg í kjallara hússins þar sem í nótt var kveikt í geymslu. Í allan dag verið unnið hörðum höndum að koma eigum fólks í öruggt skjól. Íkveikjurnar hafa haft mikil áhrif á sálarlíf íbúanna.

Fólki hlýtur að hafa verið afskaplega brugðið?

„Mjög svo, þetta er ekki það sem fólk á von á svona rétt fyrri jólin. Þetta er bara skelfilegt," segir Þorvaldur Sturluson, íbúi við Maríubakka. Fyrri íkveikjan var á aðfararnótt þriðjudags þegar konan bar eld að blöðum í ruslageymslunni.

„það kviknaði í þeim og eiturgufur bárust upp með ruslastokknum. Þetta var bara hættulegt," lýsir Þorvaldur.

Einn var þá fluttur á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun. Þegar okkur bar að garði var verið að múra ruslageymsluna.

Eftir báðar íkveikjurnar söfnuðust allir íbúar saman fyrir utan húsið og biðu eftir slökkviliðinu.

Fjölskyldufólk býr í blokkinni, „en þau vissu ekkert hvað var að gerast. Þetta var mjög óþægilegt," segir Þorvaldur um aðstæður þegar eldsvoðinn kom upp. Það var síðan seinnipartinn í dag sem kona játaði að hafa kveikt í sameigninni í bæði skiptin. Ekki er vitað hvað konunni gekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×