Fótbolti

Björgvin Páll: Ég er frískur og hungraður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgvin stóð vaktina í markinu á landsliðsæfingunni í gærkvöldi.
Björgvin stóð vaktina í markinu á landsliðsæfingunni í gærkvöldi. Mynd/Stefán
Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er klár í slaginn fyrir leikina gegn Túnis í kvöld og á morgun. Björgvin hefur glímt við fylgigigt í kjölfar salmonellusýkingar undanfarnar vikur en segist vera að komast í gott stand.

„Ég spilaði sextíu mínútur í þar síðasta leik og þrjátíu mínútur í leiknum þar á eftir. Ég held ég sé orðinn nokkuð góður. Nokkrar mínútur með landsliðinu og þá verð ég 100 prósent," segir Björgvin sem leikur með Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni.

„Skrokkurinn er í góður lagi. Ég er frískur og hungraður líka sem hjálpar manni líka þegar maður er búinn að vera frá í átta til tíu vikur. Það er ennþá skemmtilegra að vera inni á vellinum. Ég held ég sé kominn í gott form," segir landsliðsmarkvörðurinn.

Björgvin hungrar enn meir en aðra leikmenn liðsins að spila enda verið frá keppni í töluverðan tíma.

„Ég er mjög ferskur. Ég fékk pásu þótt hún hafi ekki verið voðalega skemmtileg og ég hefði kosið gott sumarfrí fram yfir eitthvað svona. Maður tekur því bara og kannski var hún góð fyrir andlega þáttinn. Þá kemur maður ennþá sterkari tilbaka," segir Björgvin sem nýtur þess að spila fyrir landsliðið.

„Þetta er frábær tími til að koma inn og landsliðið þar sem maður hefur mest gaman af því að spila. Ég er fullur orku og mjög spenntur."

Björgvin telur að íslenska liðið geti grætt mikið á æfingaleikjunum tveimur gegn Túnis í kvöld og á morgun.

„Menn eru kannski aðeins þreyttir og laskaðir eftir tímabilið, flestir nýkomnir úr ferðalagi í gær. Við getum fengið helling út úr þessum leikjum. Hver mínúta er mikilvæg þar sem tíminn er stuttur og þarf að slípa ýmislegt saman. Það vantar nokkra leikmenn og þarf að koma nýjum leikmönnum í ný hlutverk," segir Björgvin og bætir við að kærkomið sé að fá þessa tvo leiki áður en leikmenn fái stutt hlé. Hann vonast eftir góðum stuðningi á leikjunum gegn Túnis.

„Við spilum bara tvo leiki hérna heima áður en við höldum utan þannig að fá góða kveðju áður en við förum gefur þessu gildi. Ég hvet alla til þess að mæta. Ég lofa góðri skemmtun og góðri stemmningu. Við verðum að fá fólk í húsið til þess að þetta verði ennþá skemmtilegra," segir landsliðsmarkvörðurinn.

Fyrri leikur Íslands og Túnis hefst í Laugardalshöll í kvöld klukkan 19.45. Sá síðari fer fram á sama stað klukkan 13.30 á morgun.


Tengdar fréttir

Fer Aron aðrar leiðir en forverarnir?

Í fyrsta skipti frá árinu 1990 er þjálfari íslenska karlalandsliðsins ekki úr skóla Pólverjans Bogdans Kowalczyk. Þorbergur Aðalsteinsson, Viggó Sigurðsson, Alfreð Gíslason og Guðmundur Guðmundsson sóttu allir í smiðju Bogdans en mentor Arons var í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×