Innlent

Björgunarsveitarmenn þurftu að hörfa

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sannkallað vonskuveður gekk yfir Vestfirði í dag en vindhraði mældist 51 metri á sekúndu í mestu hviðunum. Ísafjarðarbær er að hluta án rafmagns og þurftu björgunarsveitir frá að hverfa í dag vegna veðurs.

Óveðrið sem gengið hefur yfir landið hefur víða ollið rafmagnsleysi og er Ísafjarðarbær að hluta án rafmagns og þá er einnig heitavatnslaust í bænum. Víðir Reynisson deildarstjóri hjá Almannavörnum segir að þó veðrið hafi náð hámarki á Vestfjörðum sé þar enn bálhvasst.

„Vestast á vestfjörðum er veður svona aðeins farið að ganga niður en er mjög slæmt á flestum stöðum. Það hefur ekki náð hámarki síðan þegar austar og norðar dregur þannig að það er ennþá mjög slæmt veður á norðurlandi," segir Víðir

Og hvað rafmagnsleysið varðar segir Víðir:

„Þetta hefur haft mjög mikil áhrif á öllum vestfjörðum og hluta Snæfellssness. Afleiðingarnar eru meðal annars að það vantar heitt vatn og síðan það sem við höfum verið að skoða síðustu klukkustundirnar eru áhrifin á fjarskiptakerfin, það eru farsímasendar að detta út og margar mikilvægar miðstöðvar í fastlínukerfinu eru á varaafli sem endist ekki að eilífu. Við erum að vonast til að halda þeim gangandi þannig að við höldum að minnsta kosti landlínukerfinu inni."

Björgunarsveitir hafa víða verið að störfum en ástandið róaðist vestantil þegar líða tók á daginn. Tjónið hefur sem betur fer hvergi verið mjög mikið, helst að þakplötur hafi losnað og rúður brotnað.

Sigurjón Sveinsson er formaður björgunarsveitarinnar á Bolungarvík:

„Það var strembið í morgun og aftur nú seinni partinn. Bárujárnsplötur hafa verið að fjúka og eitthvað lauslegt," segir Sigurjón.

Í dag var snjóflóðahættu aflétt af þremur götum á Patreksfirði og því gátu fimmtíu og tveir íbúar snúið heim aftur í dag. Að sögn Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar hefur ekki verið mjög hvasst í bænum en þó fauk upplýsingaskilti Vegagerðarinnar um koll í nótt.

Og á bænum Hóli í Önundarfirði stóð bóndinn Jónatan Magnússon í ströngu þegar þak á kálfafjósi hans var við það að hrynja undan snjóþunga. Björgunarsveitin var kölluð til en þurfti frá að hverfa vegna ófærðar.

„Ég veit ekki hvað þeir voru búnir að vera lengi, allavega þrjá tíma að harka þetta en síðan þurfti að senda þá til baka. Þetta þýddi ekkert," segir Jónatan.

Sp. blm. Og þið hafið fengið einhverja hjálp frá gestum?

„Jú, bróðir minn var hérna um jólin og systir mín og fjölskyldan hennar. Það var búið að snjóa um það bil meter í gær og síðan rigndi svolítið í gær. Þá kom mikill þungi á þakið. Ég hef ekki séð þetta svona slæmt síðan 1995"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×