Innlent

Gámur af ungbarnapökkum á leið frá Íslandi til Hvíta-Rússlands

JHH skrifar
Ungbarnapökkunum raðað í gám.
Ungbarnapökkunum raðað í gám.
Rauði krossinn á Íslandi hefur sent frá sér gám fullan af ungbarnapökkum og barnafötum til Hvíta-Rússlands. Um 6000 börn munu njóta góðs af sendingunni. Þetta er þriðja árið í röð sem systurfélag Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi fær sendingu héðan af hlýjum fatnaði, og þriðji gámurinn sem sendur er á þessu ári.

Í gámnum eru um 4000 staðlaðir fatapakkar en innihald þeirra var unnið í samvinnu við skjólstæðinga Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi, samkvæmt tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi. Í ungbarnapökkunum eru: tvær peysur, tvær samfellur, einar buxur, tvö pör af sokkum, ein húfa, eitt teppi og tvö handklæði. Í fatapökkunum fyrir 2-12 ára eru húfa, vettlingar, bolur, sokkar, peysa, og buxur.

Að auki eru í gámnum um 1200 úlpur, 1600 peysur, 1400 buxur, 500 húfur, 250 skópör, og 150 samfestingar sem gefin hafa verið af almenningi í fatasöfnun Rauða krossins. Yfir 300 sjálfboðaliðar sem starfa í 28 deildum Rauða krossins á Íslandi um allt land eiga veg og vanda af því að setja saman barnapakkana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×