Erlent

Nýr faraó í Egyptalandi

Frá mótmælum stjórnarandstæðingum í Kaíró í dag.
Frá mótmælum stjórnarandstæðingum í Kaíró í dag. MYND/AP
Nokkrar skrifstofur Bræðralags múslima í Egyptalandi urðu eldi að bráð í fjölmennum mótmælum í dag. Boðað var til mótmæla eftir föstudagsbænir.

Stjórnarandstæðingarnir mótmæla sérstakri tilskipun Mohamed Mursi, forseta Egyptalands, frá því í gær.

Forsetatilskipunin tekur til breytinga á stjórnarskrá landsins en samkvæmt henni verður vald forsetans algjört. Þannig mun engin stofnun í Egyptalandi geta haft áhrif á ákvarðanir forsetans, þar á meðal dómsvaldið.

Þá fór Mursi einnig fram á að réttarhöld skyldu fara fram að nýju yfir nokkrum mönnum sem skipulögðu árásir á mótmælendur þegar stjórnarbyltingin stóð sem hæst í janúar á síðasta ári.

Mohamed Mursi, forseti Egyptalands. Hann tók við völdum eftir að Hosni Mubarak, fyrrverandi einræðisherra Egyptalands, var steypt af stóli.MYND/AP
Mótmælendur sem og stuðningsmenn forsetans söfnuðust saman á Frelsistorginu í Kaíró í dag en fregnir hafa borist af svipuðum mótmælafundum víðsvegar í Egyptalandi.

Þá greinir breska ríkisútvarpið frá því að slegið hafi í brýnu milli mótmælenda í borginni Alexandríu og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×