Lífið

Tólf ára undirbúningur

Einar Bárðarson
Einar Bárðarson
"Ég hef verið að fást við viðburðastjórnun og markaðsmál lengi svo það má segja að ég hafi verið að búa mig undir þetta starf síðustu tólf árin," segir Einar Bárðarson, nýráðinn forstöðumaður Höfuðborgarstofu.

Auk þess að hafa átt og rekið útvarpsstöðina Kanann og setið í dómnefndum í íslensku útgáfunum af Idol og X-Factor hefur Einar flutt til landsins fjölda stórra nafna á síðustu árum og hjálpað íslenskum listamönnum að koma sér á fót erlendis. Meðal þeirra sem hafa verið undir hans verndarvæng eru stúlknahljómsveitin Nylon, SSSól og Skítamórall.

Einar hefur í kjölfarið verið kallaður umboðsmaður Íslands en leggur nú þann titil á hilluna til að einbeita sér að nýja starfinu. "Það verður spennandi að vinna í agaðra og formlegra umhverfi og ég hlakka mikið til að vinna með öllu því hæfa fólki sem Höfuðborgarstofa býr yfir. Ég efast ekki um að ég eigi eftir að læra mikið af þeim," segir hann.

Einar hefur verið búsettur í Reykjanesbæ undanfarin ár og segist ekki hafa leitt hugann að því hvort hann flytji með fjölskylduna til Reykjavíkur. "Við þurfum kannski að fara að pæla í því," segir hann og hlær.

- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.