Innlent

Ástþór slær í gegn með ljósmyndabók

Boði Logason skrifa

„Þetta er náttúrulega allt saman sölumennska - það er alltaf verið að selja hugmyndir og fegurð. Í þessu er það náttúrufegurð en í hinu er það persónufegurð," segir Ástþór Magnússon, fyrrum forsetaframbjóðandi, sem hefur nú alfarið snúið sér að ljósmyndun. Svo vel gengur hjá honum að vefur breska blaðið Daily Mail birtir umfjöllun um nýja ljósmyndabók sem hann gaf út á dögunum.

Ljósmyndun er ekki ný fyrir Ástþóri því hann lærði tísku- og auglýsingaljósmyndun við hinn virta skóla Medway College of Art and Design í Bretlandi ungur að árum. Hann rak einnig ljósmyndastofu og framköllunarfyrirtæki um árabil.

„Ég var með sýningu í Gallerí Fold í sumar, og er að gera myndir með nýrri tækni. Svokallaðar glögg-myndir, þetta eru alveg risastórar myndir allt upp í 1x2 metrar. Ég er núna að fara með þetta í erlend gallerí. Þetta áhugamál kallar alltaf aftur á mann. Ég byrjaði ævina í ljósmyndun og langar að enda hana í ljósmyndun," segir Ástþór.

Bókin sem Ástþór var að gefa út nefnist á ensku Iceland Inside og birti vefur Daily Mail nokkrar litskrúðugar myndir úr bókinni og stutt viðtal við Ástþór.

Ástþór hefur tekið því rólega frá því að forsetakosningarnar kláruðust í vor. „Ég er úti á Spáni núna, ég er með hús þar. Ég hef verið að fókusa á þessa ljósmyndun og er með síðuna gloggmynd.is. Þannig það er bara bjart í kringum mig."

En er hann búinn að hafa samband við skrifstofu forsetans og biðja um að taka mynd af forsetanum, nú þegar hann er aftur farinn að taka myndir? „Nei ég hef nú ekki gert það ennþá," segir hann hlæjandi. „Ég kannski fæ að taka myndir af honum ef hann býður sig fram aftur."

En ætlar hann að bjóða sig fram aftur eftir fjögur ár? „Ég veit það nú ekki, ég verð örugglega dauður áður en ég næ að bjóða mig fram aftur án þess að hann sé þarna," segir hann að lokum.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.