Erlent

Yngsti fangi Guantanamó fluttur til Kanada

Khadr í Guntanamó-fangelsinu.
Khadr í Guntanamó-fangelsinu. mynd/AP
Khadr var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann var handtekinn í Afganistan árið 2002. Hann var sakaður um að hafa staðið að baki sprengjuárás sem kostaði bandarískan herlækni lífið, ásamt því að hafa aðstoðað og miðlað upplýsingum til hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.

Khadr gekkst við brotunum og var hann í kjölfarið dæmdur til fjörutíu ára fangelsisvistar.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma enda var Khadr langyngsti vistmaðurinn í Guantanamó, herfangelsi Bandaríkjamanna á Kúbu. Þar að auki er hann einn af örfáum Vesturlandabúum sem dæmdir hafa verið til vistunar í fangelsinu. Khadr er af Kanadísku bergi brotinn.

Yfirvöld í Kanada tilkynntu síðan um helgina að Khadr hefði verið fluttur með herflugvél til landsins og að hann myndi ljúka afplánun sinni þar. Talið er að Khadr muni sitja bak við lás og slá næstu átta árin.

Þrátt fyrir að dómstólar í Kanada hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að mannréttindi hans væru brotin í Guantanamó reyndu stjórnvöld þar í landi aldrei að frelsa Khadr.

Khadr, sem nú er tuttugu og sex ára gamall, er fyrsti unglingurinn frá seinni heimsstyrjöld sem dreginn hefur verið fyrir herdómstól og dæmdur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×