Íslenski boltinn

Atli Guðnason valinn bestur í Pepsi-deild karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason. Mynd/Daníel
Atli Guðnason, sóknarmaður Íslandsmeistara FH, var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla af leikmönnum deildarinnar. Valið var tilkynnt í sérstakri athöfn í Silfurbergi í Hörpu í kvöld en hátíðin var einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Atli Guðnason er 28 ára gamall og er að fá þessi verðlaun í annað skiptið á þremur árum en hann var einnig valinn sá besti sumarið 2009. Atli varð markakóngur Pepsi-deildarinnar með 12 mörk og lagði einnig upp flest mörk.

Atli skoraði tvær þrennur í Pepsi-deildinni í sumar og átti einnig þátt í fjórum sigurmörkum FH-liðsins, skoraði tvö þeirra sjálfur og lagði upp tvö önnur.

Atli hefur þar með fengið þessi verðlaun í tvö síðustu skipti sem FH-ingar hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum en hann hefur leikið í það minnsta einn leik á fimm af sex Íslandsmeistaraárum FH-liðsins.

Atli kom inn á sem varamaður í einum leik 2004 en var síðan lánaður til Fjölnis sumarið eftir. Hann hefur aftur á móti verið í stóru hlutverki frá og með sumrinu 2006 og tekið þátt í að landa síðustu fjórum Íslandsmeistaratitlum FH-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×