Íslenski boltinn

Bjarni Jóhannsson er hættur sem þjálfari Stjörnunnar

Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson. Mynd/Ernir
Bjarni Jóhannsson stýrði karlaliði Stjörnunnar í síðasta sinn þegar liðið tapaði 2-0 á móti Breiðabliki í lokaumferð Pepsi-deildar karla á laugardaginn. Þetta staðfesti Almar Guðmundsson, formaður Knattspyrnudeildar Stjörnunnar, við Íþróttadeild Stöðvar 2 í dag.

Almar segir að þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun hjá Bjarna og Knattspyrnudeild Stjörnunnar en Bjarni hefur þjálfað Stjörnuliðið undanfarin fimm tímabil.

Heimir Hallgrímsson, fyrrum þjálfari ÍBV og aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, hefur verið orðaður við stöðuna en samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá eru hverfandi líkur á því að svo verði.

Stjarnan rétt missti af Evrópusæti annað tímabilið í röð og datt niður í fimmta sætið eftir lokaumferðina.

Bjarni hefur þjálfað Stjörnuliðið frá 2008 en undir hans stjórn hefur liðið náð besta árangrinum í sögu karlaliðs félagsins. Stjarnan komst upp í úrvalsdeild á fyrsta ári hans í Garðabænum, náði sínum besta árangri í deildinni þegar liðið varð í 4. sæti í fyrra og komst í bikarúrslitaleik í fyrsta sinn í sumar en Stjarnan tapaði þar fyrir KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×