Innlent

Gagnrýnir harðlega ákvörðun um kaup á Umferðarmiðstöðinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir harðlega ákvörðun borgaryfirvalda um að kaupa Umferðarmiðstöðina við Vatnsmýrarveg og svæðið í kring fyrir 445 milljónir króna. Eins og fram kom í síðustu viku stendur til að flytja þangað aðalskiptistöð Strætó og hafa þar miðstöð almenningssamgangna. Umræða um málið fór fram á borgarstjórnarfundi í dag.

„Engin ákvörðun liggur fyrir um það í borgarkerfinu eða hjá Strætó bs. að koma aðalskiptistöð almenningssamgangna fyrir í BSÍ-húsinu," segir Kjartan Magnússon í orðsendingu til fjölmiðla. Þá segir hann ekkert faglegt mat liggja fyrir um hvort BSÍ sé ákjósanlegasti staðurinn í Reykjavík fyrir nýja aðalskiptistöð. Árum saman hafi verið rætt um það á vettvangi borgarstjórnar og Strætó bs. hvar æskilegast væri að koma fyrir nýrri aðalskiptistöð og hafi ýmsir staðir verið nefndir til sögunnar; t.d. Kringlan, Mjóddin, BSÍ og Lækjartorg. Í minnisblaði frá Strætó frá 29. febrúar 2012 hafi komið fram miklar efasemdir um að BSÍ sé heppilegasti staðurinn.

Þá segir Kjartan að það sé ótrúlegt að stefnt skuli að kaupum á BSÍ til að koma þar fyrir skiptistöð án þess að sérfræðilegt mat liggi fyrir. Verðið sé afar hátt miðað við að mikil óvissa ríkir um skipulagslega stöðu lóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×