Innlent

Óttast að kvótagróði gæti farið í fótboltafélög og dagblöð uppá landi

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir hugsanlegt að auka varnir gegn atvinnumissi vegna kvótasölu úr strandbyggðum með því að taka upp sérstaka skírskotun til mikilvægis sjávarbyggða inn í samningsafstöðu Íslands þegar samningar hefjast um fiskveiðar í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta segir Össur í samtali við Eyjafréttir í tilefni af sölu útgerðarfyrirtækisins Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Utanríkisráðherra segir að salan hafi leitt til þess að mikilvægur kvóti hvarf á einni nóttu úr Eyjum. Þetta sýni skuggahliðar kerfisins líkt og Flateyringar hafi fengið að kynnast fyrir nokkrum árum. „Öðrum stórum eigendum í útgerð gæti einhvern tíma komið til hugar að selja, eða afkomendum þeirra, og þess vegna setja afraksturinn í fótboltafélög eða dagblöð uppi á landi. Hvar er vörnin? Auðvitað ætti hún að vera í okkar eigin löggjöf en hún er þar ekki,‟ segir Össur.

Össur segir það athyglisvert að þó sjávarútvegsstefnu ESB sé í mörgu ábótavant leggi hún meiri áherslu á hagsmuni og stöðu sjávarbyggða en er að finna í okkar eigin löggjöf. Hann segir að burtséð frá aðildarferlinu geti Íslendingar lært af þessu. „Og ef við teljum æskilegt, tekið upp sérstaka skírskotun til mikilvægis sjávarbyggða í samningsafstöðu okkar um sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði,‟ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×