Innlent

Seðlabankinn sýknaður af kröfum Más

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seðlabanki Íslands var rétt í þessu sýknaður af kröfum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Már stefndi bankanum því að hann taldi að breytingar hefðu verið gerðar á launakjörum sem hann hafði samið um þegar hann var skipaður seðlabankastjóri. Dómurinn var kveðinn upp núna klukkan hálfþrjú.

Forsaga málsins er sú að Már tók við sem seðlabankastjóri í ágúst 2009. Bankaráð sá um að semja um laun við hann og var niðurstaðan sú að hann fengi tæplega 1.575 þúsund krónur á mánuði.

Í sama mánuði var lögum um kjararáð breytt þannig að valdið til að ákveða laun ýmissa yfirmanna stofnanna og ríkisfyrirtækja, þar á meðal seðlabankastjóra, var fært yfir til kjararáðs. Þá var einnig kveðið á um það í lögunum eftir breytingu að dagvinnulaun yfirmannanna ættu ekki að vera hærri en föst laun forsætisráðherra sem voru 935 þúsund krónur á mánuði.

Í framhaldinu, eða í mars 2010, voru laun seðlabankastjóra lækkuð. Dagvinnulaun hans urðu 862 þúsund krónur á mánuði. Auk þess var ákveðið að greiða honum fasta yfirvinnutíma í hverjum mánuði. Með öllu urðu því launin tæpar 1.266 þúsund krónur og lækkuðu þau því um rúmar 300 þúsund krónur.

Már kvaðst hafa kynnt sér starfskjör áður en hann sótti um og að lögum um kjararáð hafi verið breytt eftir að gengið var frá ráðningu hans. Það var á þeim forsendum sem hann stefndi bankanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×