Innlent

Þór Saari þarf að greiða Ragnari Árna 300 þúsund

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Árnason og Þór Saari við þingfestingu málsins.
Ragnar Árnason og Þór Saari við þingfestingu málsins.
Þór Saari hefur verið dæmdur til að greiða Ragnari Árnasyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, 300 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem birtust í frétt DV þann 7. - 8. september í fyrra. Þá voru ummælin „Ragnar Árnason hefur verið á launum hjá LÍU í áratugi" sem birtust í umræddri frétt dæmd dauð og ómerk. Þór þarf að auki að greiða Ragnari 800 þúsund krónur í málskostnað.

Héraðsdómur Reykjaness kemst að þeirri niðurstöðu fullyrðing Þórs sé röng. Þá sé það enn fremur mat dómsins að röng fullyrðing geti ekki með nokkru móti verið heimil tjáning; átt erindi til almennings eða verið liður í gagnrýni og ádeilu á starf Háskóla Íslands eins og stefndi heldur fram. Engu breyti hvort Ragnar geti talist opinber persóna eða ekki.

„Þá er því enn fremur hafnað að upplýsingar frá stefnda, eins og þær eru fram settar í frétt DV frá 7.-8. september 2011 endurspegli umræðu sem sé fræðandi og upplýsandi og auki skilning almennings á fjölmörgum þáttum sjávarútvegs og hvað þá að ummæli stefnda geti verið liður í almennri þjóðfélagsumræðu um málið," segir í dómnum.

Þá segir dómurinn að ummæli Þórs Saari í DV séu tilhæfulaus, óviðurkvæmileg og ærumeiðandi í því samhengi sem þau voru birt. Ummælin séu móðgandi og meiðandi fyrir Ragnar og feli í sér aðdróttun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×