Erlent

Kafa eftir leyndardómum Forngrikkja

Fornleifafræðingar munu á næstunni rannsaka rómverskt skipsflak á hafsbotni við Grikkland. Þeim var heldur brugðið, veiðimönnunum sem uppgötvuðu flakið árið nítjánhundruð. Þeir tilkynntu yfirvöldum að hrúgu af dauðum og allsnöktum konum væri að finna á hafsbotni við eyjuna Antikythera.

Sérfræðingar voru kallaðir til og í ljós kom að engin voru líkin heldur fjöldi bronsstytta. Skúlptúrarnir voru hluti af farmi sem fór niður með rómverska skipinu fyrir rúmlega tvö þúsund árum. Líklegt þykir að munirnir hafi verið frá forn-Grikkjum og að farmurinn hafi verið góss rómverskra hermanna.

Í flakinu fundust vopn, skartgripið og torkennilegur kassi sem grísku sérfræðingarnir botnuðu ekkert í. Í kassanum var urmull tannhjóla, talnaskífa og skrúfa.

Áratugum seinna, og með hjálp röntgentækni, áttuðu menn sig á hver tilgangur tækisins var. Það spáir fyrir um gang himintunglanna af ótrúlegri nákvæmni. Gangverkið getur jafnvel spáð fyrir um sólmyrkva.

Seinna í þessum mánuði munu fornleifafræðingar heimsækja flakið á ný en grunur leikur á að skipið hafi enn leyndardóma að geyma.

Hægt er að sjá myndband af Antikythera-gangverkinu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×